Að fá viðurkenningu fyrir vel unnið starf er mjög gaman

Arnar Björnsson var valinn íþróttamaður Skagafjarðar við hátíðlega athöfn í Ljósheimum á dögunum. Arnar er einn af lykilleikmönnum meistaraflokks Tindastóls í körfubolta og var aðeins 6 ára gamall þegar áhuginn á íþróttinni kviknaði þegar hann fékk að kíkja með pabba sínum á æfingar í Síkinu en í kringum 11 ára þegar hann fær metnað fyrir íþróttinni og ákvað að þetta væri eitthvað sem hann vildi gera í framtíðinni.

En hvað er það sem gerir körfubolta svona skemmtilegan? „ Það er svo margt. Það sem heillaði mig þegar ég var yngri, voru hreyfingarnar sem menn gerðu til að komast framhjá varnarmanninum sínum. En í dag er það að vera hluti af liðsheild með sameiginlegt markmið og vinnan sem fer í það að ná því markmiði. Það er sérstaklega skemmtilegt þegar maður er í góðu liði, með skemmtilega liðsfélaga og með heilt bæjarfélag sem styður við bakið á manni.“ Arnar nær svo sannarlega að selja öllum sem á hann horfa spila körfubolta að þetta sé stórskemmtileg íþrótt, því hann spilar aldrei öðruvísi en brosandi eyrna á milli.

En talandi um lið og liðsheild hvernig þjálfari er Pavel? „Hann er frábær þjálfari. Hann hefur verið hálfgerður spilandi þjálfari allann sinn feril og hefur stýrt liðunum sínum inná vellinum. Það virðist því hafa verið verið frekar náttúrulegt fyrir hann að færa sig yfir í þjálfun. Hann er alvöru leiðtogi og við erum heppnir að hafa hann, “ segir Arnar.

Við sem fylgjumst með körfunni fengum nett áfall þegar heyrðist að Arnar væri brotinn, en hann braut bátsbeinið í úlnliðnum á sér en segist vera orðinn góður og klár í leikinn 4. janúar sem er gríðarlegt fagnaðarefni. Stemmingin er frábær að sögn Arnars og þeir eru mjög spenntir að byrja aftur, allir orðnir heilir og klárir í framhaldið.

Jólafríið frá körfunni fór misjafnlega ofan í landann og einhverjir höfðu á orði að þeir vildu leik milli jóla og nýárs, en Arnar segir jólin hafa verið mjög næs, og mjög ánægður með að fá frí og góðan tíma með fjölskyldu og vinum og hreinsa hugann aðeins. En jafnvel mikilvægara fyrir erlendu leikmennina sem geta skotist aðeins heim til sín og hitt fólkið sitt um jólin.  

En hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að vera íþróttamaður Skagafjarðar? „Við eigum fullt af flottu íþróttafólki í Skagafirði, þannig að vinna þessi verðlaun er mikill heiður og ég er stoltur af því. Ég legg mikla vinnu í það að bæta mig sem leikmaður á hverjum degi og að fá viðurkenningu fyrir vel unnið starf er mjög gaman. En ég er í liðsíþrótt og er í besta liðinu á landinu og þa gerir það auðveldara að spila vel.“

Um leið og við óskum Arnari til hamingju með vel verðuskuldaðan titil, vonum við að hann njóti um áramótin í sínum heimabæ í faðmi fjölskyldu sem kemur norður og borðar góðan mat, skýtur upp flugeldum og horfir á skaupið, sennilega eins og við flest eigum eftir að gera á þessu kvöldi.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir