Íþróttagarpurinn Birgitta Rún Finnbogadóttir frá Skagaströnd

Birgitta Rún - Mynd: Sigurður Ingi Pálsson
Birgitta Rún - Mynd: Sigurður Ingi Pálsson

Birgitta Rún Finnbogadóttir er 15 ára fótboltastelpa sem býr á Hólabrautinni á Skagaströnd. Fótboltasumarið hennar hefur verið hreint ævintýri en hún og vinkona hennar á Skagaströnd, Elísa Bríet Björnsdóttir, komu heldur betur á óvart með meistaraflokki Tindastóls í sumar og voru búnar að festa sér sæti í hópnum og farnar að spretta úr spori í Bestu deildinni. Sennilega ekki eitthvað sem þær áttu von á í vor þegar tímabilið var að hefjast. Birgitta er því íþróttagarpurinn í Feyki að þessu sinni og fær svo nokkrar aukaspurningar tengdar sumrinu.

Birgitta er uppalin á Skagaströnd en foreldrar hennar eru Finnbogi Guðmundsson og Sigrún Líndal Þrastardóttir. Hún á einn eldri bróður, Brynjar Daða, og yngri systur, Katrínu Heiðu. Lifsmóttóið sitt segir Birgitta vera að gera alltaf sitt besta. Þar sem Birgitta er enn aðeins 15 ára gömul þá hefur hún auk þess að vera að spila með meistaraflokki Tindastóls, spilað með sameinuðum liðum Tindastóls, Hvatar, Kormáks og Fram í 3. flokki og 2. flokki og náð með þeim flottum árangri í sumar.

Hvaða íþróttir stundarðu? „Mín aðalíþróttagrein er fótbolti,“ segir Birgitta en hún spilar fyrir Umf. Fram á Skagastrond og með liði Tindastóls. „Ég hef einnig æft körfubolta og keppti í fyrra með sameiginlegu liði á Norðurlandi vestra en svo var orðið svo mikið að gera í fótboltanum að ég ákvað að hætta í körfubolta. Svo hef ég líka æft frjálsar.“

Helstu íþróttaafrek? „Að spila í Bestu deildinni.“

Skemmtilegasta augnablikið? „Þegar við unnum úrslitaleikinn um bikar númar 2 á TM mótinu í Vestmannaeyjum og vorum níunda besta liðið af 100 liðum á mótinu.“

Neyðarlegasta atvikið? „Ætli ég eigi ekki bara eftir að lenda í einhverju neyðarlegu, man eiginlega ekki eftir neinu...“

Ertu með einhverja sérvisku eða hjátrú fyrir leiki? „Nei, svo sem ekki.“

Uppáhalds íþróttamaður? „Messi og Glódís Perla Viggósdóttir,“ segir Birgitta en þess má geta að Glódís Perla, sem er fyrirliði íslenska landsliðsins, er ættuð frá Skagaströnd.

Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera, í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur og hvernig færi? „Ég og Elísa erum á Pönnuvellinum. Ég tek þreföld skæri, klobba hana, skil hana eftir á jörðinni, tek hjólhestaspyrnu og beint í markið.“

Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? „Það var á bæjarhátíð á Flateyri. Ég og Ásta frænka mín tókum þátt í söngkeppni og unnum hana með stæl.“

Hvernig myndirðu lýsa sjálfri þér sem leikmanni? „Hröð, einbeitt, svolítið crazy inn á vellinum og á það til að taka gott spjall við dómarann.“

Hvað er verið að gera þessa dagana? „Þessa dagana er ég að æfa og keppa í fótbolta og er í skólanum. Það kemst ekkert að nema fótbolti og skóli.“

Hvernig hefur sumarið verið í fótboltanum, áttirðu von á því að spila leiki í Bestu deildinni í sumar? „Það er búið að vera mikið að gera í fótboltanum í sumar. Algjörlega geggjað fótboltasumar með öllum flokkunum. Ég var ekki að búast við því að fá að spila í Bestu deildinni með meistaraflokki í sumar. En þegar Donni sendi á mig skilaboð og spurði hvort ég væri til í að koma og keppa með meistaraflokki á móti Val þá brá mér ekkert eðlilega mikið. Ég var geggjað ánægð með að hann vildi fá mig í liðið. Ég átti svo ekki von á að fá að fara inn á.“

Hvað ertu búin að spila marga leiki í ár, ertu ekki orðin leið á boltanum? „Ætli ég sé ekki búin að spila um 40 leiki samanlagt í sumar með 3. flokki, 2. flokki og meistaraflokki. Ég mun aldrei fá leið á boltanum.“

Þú ert búin að vera mikið á ferðinni út af fótboltanum. Hvað gerirðu í öllum þessum bílferðum? „Já ég er búin að vera mikið á ferðinni, sérstaklega í sumar. Bæði á æfingar og svo í leiki. Ég get ekki einu sinni skotið á það hvað ég er búin að fara marga kílómetra í sumar. Ég var að mæta á æfingar á Sauðárkróki þrisvar í viku. Ætli pabbi hafi ekki keyrt okkur Elísu oftast en svo voru það stundum mömmurnar sem keyrðu. Það var alltaf stuð í þessum bílferðum og oftast var hlustað á tónlist.“

Hvaða ferð í ár hefur verið eftirminnilegust? „Það er nú erfitt að gera upp á milli ferðanna, þær eru allar skemmtilegar. Þetta eru svo geggjaðar stelpur sem ég er að spila með í öllum flokkunum. En bílferðin í Haukaleikinn núna í september var alveg geggjuð. Hún Magga markvörður fór alveg á kostum sem bílstjóri og það var mikið hlegið.“

Hvort er nú skemmtilegra að spila með 3. flokki, 2. flokki eða meistaraflokki? „Mér finnst skemmtilegt að spila með öllum flokkunum, get ekki gert upp á milli þeirra. Allt geggjaðir hópar.“

Hvernig var að vera orðinn hluti af meistaraflokkshópi Tindastóls, eru þetta sæmilega hressar stelpur og finnst þér þú læra eitthvað af þeim? „Það var geggjað að vera hluti af þessum meistaraflokkshópi, geggjaður hópur og frábærir þjálfarar. Alltaf spennt að mæta á æfingar og gera mitt besta. Stelpurnar í hópnum tóku okkur Elísu vel og ég upplifði alltaf að ég væri velkomin. Þær hafa kennt mér alveg helling, bæði innan vallar og utan, og það var alltaf stemning í kringum þær. Ég er ótrúlega þakklát að hafa fengið að vera hluti af hópnum.“

Á hvað stefnirðu í fótboltanum? „Að spila fleiri leiki í Bestu deildinni og síðar að spila með A-landsliði Íslands – er það ekki bara?!“

 

   

Myndir: Óli Arnar 

Feykir þakkar Birgittu Rún kærlega fyrir að svara Íþróttagarpinum:)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir