Húnvetningar töpuðu gegn Elliða og Aco lætur af störfum
Í síðustu viku lutu Húnvetningar í sundpollinn í Garði þegar lið Víðis hafði betur og þá var ákall frá fréttaritara heimasíðu Kormáks/Hvatar um færri víti og færri spjöld. Ekki virtust hans menn hafa lesið pistilinn því spjöld og víti voru meðal annars uppskera Kormáks/Hvatar þegar liðið tók á móti Árbæingum í Elliða í óvenju þéttri suðvestanátt með tilheyrandi rigningarslettum á Sauðárkróksvelli. Niðurstaðan 1-3 tap og áfram gakk.
Heimaliðið í skarpbleiku hafði vart hreyft legg eða lið þegar gestirnir voru komnir í forystu en Nikulás Ingi Björnsson skoraði strax á fyrstu mínútu. Framan af leik stungu Elliðar boltanum oftar en ekki inn fyrir vörn Kormáks/Hvatar og áður en hálfleikurinn var hálfnaður höfðu þrír varnarsveinar Húnvetninga fengið að líta gula spjaldið. Lið Elliða uppskar vítaspyrnu þegar þriðja spjaldið leit dagsins ljós og úr henni skoraði Pétur Óskarsson á 24. mínútu. Eftir þetta fór heimaliðið að ná betra valdi á aðstæðum og það var sanngjarnt að þeir minnkuðu muninn á 40. mínútu með marki úr aukaspyrnu sem Lazar Cordasic tók. Áfram sóttu leikmenn Kormáks/Hvatar og uppskáru hornspyrnu á 43. mínútu. Í kjölfar hennar varð mikið klafs í teignum og menn lágu í valnum og síðan sperrtu menn stél þannig að dómarinn varð að sýna tveimur köppum gula spjaldið, einum úr hvoru liði. Það var óheppilegt fyrir Húnvetninga því Sigurður Bjarni fyrirliði fékk þar með að líta sitt síðara gula spjald sem varð því rautt. Staðan 1-2 í hálfleik.
Húnvetningar sóttu að marki gestanna í síðari hálfleik og sköpuðu sér færi sem ekki nýttust. Gestirnir svöruðu sem fyrr með skyndisóknum og uppskáru þriðja mark sitt á 69. mínútu.
Aco Pandurevic lætur af störfum
Svekkjandi tap því staðreynd hjá liði Kormáks/Hvatar en varnarleikurinn hefur verið svolítill höfuðverkur þar sem meiðsli hafa herjað á mannskapinn. Horfir þar víst til betri vegar.
Á heimasíðunni góðu, þar sem finna má magnaða leiklýsingu, er einnig greint frá því að Aco Pandurevic hafi látið af störfum sem þjálfari bleikra en hann stýrði liðinu því í síðasta sinn í gær. Hann tók við þjálfarakeflinu af Ingva Rafni Ingvarssyni fyrir leiktímabilið 2022 og stýrði liðinu í níunda sæti í 3. deildinni síðasta sumar en liðið er einmitt í sama sæti nú að þremur umferðum loknum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.