Húnvetningar skutust í annað sætið eftir sigur á Víði

Húnavökuleikurinn fór fram á Blönduósvelli í dag en þá tók lið Kormáks/Hvatar á móti Víði í Garði. Liðin eru bæði í töppbaráttunni í 3. deild en lið gestanna var í öðru sæti fyrir leik en heimamenn í fjórða sæti. Það var því mikið undir og úr varð töluverð veisla, boðið upp á fimm mörk og sem betur fer gerði lið Kormáks/Hvatar fleiri en andstæðingurinn og skaust upp í annað sæti deildarinnar. Lokatölur 3-2.

Helgi Þór Jónsson kom Víðismönnum yfir strax á 7. mínútu en Papa Tecagne jafnaði með glæsiskoti í skeitin á 14. mínútu og staðan 1-1 í hálfleik. Spilandi þjálfari heimamanna, Ingvi Rafn, kom sínum mönnum yfir á 49. mínútu en Paolo Gratton jafnaði tólf mínútum síðar. Sigurmark leiksins leit dagsins ljós á 73. mínútu og það gerði Atli Þór Sindrason með skalla en hann hafði komið inn á fimm mínútum áður. Þetta var fyrsta mark Atla fyrir Kormák/Hvöt og það í sínum fjórða leik í meistaraflokki. Afgreiddi hann boltann í markið eftir sendingu frá jafnaldra sínum, Kristni Bjarna Andrasyni, en þeir eru mjög efnilegir báðir tveir, fæddir 2006 og Blönduósingar.

Ingvi Rafn var ánægður með leikinn þegar Feykir hafði samband. „Mjög öflugur sigur, hefði mátt vera stærri,“ sagði hann og bætti við að sitt lið hefði fengið 2-3 dauðafæri í leiknum fyrir utan mörkin. Nú þegar búið er að spila tólf umferðir af 22 er lið Kormáks/Hvatar sem fyrr segir í öðru sæti deildarinnar. Lið Reynis Sandgerði er með nokkuð heilbrigða forystu á toppnum en þar á eftir koma Kormákur/Hvöt, Víðir, Augnablik og Árbær gæti mögulega blandað sér í baráttunni.

Sannarlega góður sigur heimaliðsins á Blönduósi í dag. Áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir