Húnvetningar nældu í gott stig í Garðabænum
Lið Húnvetninga heldur áfram að pluma sig býsna vel í 2. deildinni en í dag heimsóttu þeir Garðbæinga í liði KFG. Litlu munaði á liðunum fyrir leik, lið Kormáks/Hvatar stóð þá tveimur stigum betur, og sá munur breyttist ekki í dag þegar liðin gerðu sitt hvort markið. Stigið dugði hins vegar til að færa lið Húnvetninga upp um sæti, eru nú í áttunda sæti deildarinnar með 19 stig þegar fimm umferðir eru eftir.
Ekkert var skorað í fyrri hálfleik sem var tilþrifalítill að hálfu beggja liða þó heimamenn hafi reyndar sett boltann í stöng gestamarksins snemma leiks. Strax á fjórðu mínútu í síðari hálfleik komust heimamenn yfir þegar Dagur Orri Garðarsson slapp inn fyrir vörn gestanna og skoraði. Ekki héldu þeir forystunni lengi því á 56. mínútu átti Enanuel Nikpalj góða aukaspyrnu inn á teig KFG þar sem Artur Balicki skallaði boltann í netið. Samkvæmt Aðdáendasíðu Kormáks höfðu Húnvetningar undirtökin það sem eftir lifði og voru óheppnir að bæta ekki við marki.
Næstkomandi miðvikudag mætir lið Ægis úr Þorlákshöfn á Blönduósvöll en lið Ægis er sæti neðar en Kormákur/Hvöt, með 18 stig en Húnvetningar 19. Lið KF í Fjallabyggð hleypti spennu í botnbaráttunni með sterkum sigri á heimavelli í dag en þar lögðu þeir eitt af toppliðum deildarinnar, Víking Ólafsvík, 4-1. Það má því hvergi misstíga sig í baráttunni næstu vikurnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.