Húnvetningar miklu meir' en spenntir eftir sigur á Magna

Ismael fagnar sigurmarki. MYND AF AÐDÁENDASÍÐU KORMÁKS/HVATAR
Ismael fagnar sigurmarki. MYND AF AÐDÁENDASÍÐU KORMÁKS/HVATAR

Lið Kormáks/Hvatar heldur áfram að brillera í 3. deildinni nú í sumar og eftir sterkan sigurleik á liði Magna frá Grenivík í gærkvöldi þá er liðið nú í öðru sæti 3. deildar með 20 stig að loknum tíu umferðum. Deildin er skemmtilega jöfn og augljóst að ekki er hægt að bóka neinn sigur fyrirfram. Niðurstaðan á Blönduósvelli 2-1 sigur og Húnvetningar miklu meir' en spenntir eftir iðnaðarsigur á Magna.

Grenvíkingar hafa sjaldan gefið tommu eftir og það varð engin breyting á því í gær. Eftir frekar tilþrifalítinn leik leit fyrsta markið dagsins ljós á 44. mínútu eftir laglega sókn. Papa gesystist upp völlinn með boltann, sendi á Ismael sem gerði vel í því að koma boltanum fyrir markið og þar var Benni mættur, nýbúinn að blása galdradufti í markaskóna, og smellti boltanum í netið. 1-0 í hálfleik.

Gestirnir voru sprækir framan af síðari hálfleik en Uros í marki heimamanna átti enn einn stórleikinn. Hann kom þó ekki í veg fyrir að Kristinn Óskarsson jafnaði leikinn á 76. mínútu eftir klafs í teig heimamanna. Húnvetningar blésu þá í herlúðra og sóttu stíft að marki Grenvíkinga og uppskáru mark á 80. mínútu. Þá fékk Ismael stungusendingu inn fyrir vörn Magna, varð á undan markmanninum í boltann og náði að klára færið snyrtilega í annarri tilraun. Gestirnir reyndu að pressa og jafna leikinn en vörn heimamanna hélt eins og svo oft áður og því var vel fagnað á Blönduósi í leikslok.

Í yfirferð Aðdáendasíðu Kormáks/Hvatar fagna menn því að hafa náð í sigur þrátt fyrir að spila ekki vel. Sömuleiðis er því fagnað að liðið hefur ekki tapað í síðustu sjö leikjum, sextán leikmenn fengu að spreyta sig og ungir leikmenn liðsins nýttu sínar mínútur vel. Húnvetningar náðu öðru sæti deildarinnar af Víði Garði sem laut í garð í gær en Reynir Sandgerði trónir á toppnum með 22 stig.

Heimildir: Aðdáendasíða Kormáks/Hvatar og KSÍ

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir