Húnvetningar sóttu þrjú stig í Sandgerði
Lið Kormáks/Hvatar sótti þrjú stig suður með sjó í gærkvöldi en þá mættu þeir botnliði Reynis Sandgerði í afar mikilvægum leik í botnbaráttu 2. deildar. Gestirnir voru sterkari aðilinn í leiknum og uppskáru eitt mark um miðjan síðari hálfleik og það dugði til þar sem sterk vörn Húnvetninga hélt vatni og vindum. Lokatölur 0-1.
Kormákur/Hvöt var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en tókst ekki að nýta kvartfærin sem gáfust. Heimamenn fengu urmul af hornspyrnum en komust ekkert áleiðis við markið. Í hálfleik kom Ismael inn á en hann skipti á dögunum frá Reyni yfir í Kormák/Hvöt að nýju. Áfram höfðu Húnvetningar yfirhöndina í síðari hálfleik en eina markið leit dagsins ljós á 68. mínútu. Þá átti Artur Balicki skot frá vítateig sem endaði í marki Reynis með viðkomu af varnarmanni.
Lið Kormáks/Hvatar hélt út til leiksloka og styrkti þar með stöðu sína í 2. deildinni. Liðið er í níunda sæti með 15 stig , jafn mörg og Höttur/Huginn og Ægir sem eiga bæði einn leik til góða á Húnvetninga og eru með hagstæðari markatölu. Fyrir neðan Kormák/Hvöt eru KFG með 13 stig, KF með átta stig og Reynir sjö. Í næstu umferð fá Húnvetningar lið KF í heimsókn á Hvammstanga og sigur þar kæmi Kormáki/Hvöt í gott skjól í deildinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.