Hundrað marka Murr með geggjað mark í merkissigri á Þrótti
Það er óhætt að segja að Stólastúkur hafa hingað til ekki sótt gull í greipar Þróttara sem nú eru eitt albesta lið landsins. Í það minnsta man Bryndís Rut fyrirliði ekki til þess að hafa unnið Þrótt. Það má því kannski segja að það hafi ekki margir verið vongóðir um að lið Tindastóls færi á splunkunýjan gervigrasvöll þeirra reykvísku og tækju stigin þrjú með sér norður. En það var einmitt það sem gerðist í gærkvöldi. Gott skipulag, gæði og gríðarleg vinnusemi – og kannski pínu lukka – sáu til þess að Stólastúlkur sigruðu Þrótt 0-2. Seinna markið var af rándýrari gerðinni og hundraðasta mark Murr fyrir lið Tindastóls.
Leikið var við frábærar aðstæður á AVIS-vellinum í Laugardalnum í gær. Heimaliðið sótti fast frá fyrstu mínútu og þær einokuðu boltann megnið af leiknum. Hafa örugglega átt hann. Það var því hlutverk Stólastúlkna að fullnýta tískuorðið í íslenska boltanum þetta sumarið – að söffera. Þegar liðin mættust á Króknum í fyrri umferðinni þá var lið Þróttar komið með tveggja marka forystu eftir tíu mínútna leik og það mátti ekki endurtaka sig. Það var því lykillinn að góðum úrslitum að verja markið með kjafti og klóm og það gerðu stelpurnar og það sem lak í gegn varði meistari Monica Wilhelm í markinu.
Stólastúlkur höfðu ekki farið oft með boltann yfir miðlínu þegar þær náðu forystunni í leiknum eftir 25 mínútna leik. Murr fékk boltann upp við endalínu eftir innkast og hún náði að komast framhjá tveimur varnarmönnum Þróttar og koma boltanum fyrir. Boltinn endaði hjá hinni spænsku Beatriz Salas, skot hennar var varið en boltinn barst á ný til hennar og hún hamraði hann upp í þaknetið. Staðan 0-1 í hálfleik.
100. mark Murr
Áfram héldu Þróttarar að banka á Tindastólsvörnina í upphafi síðari hálfleiks. Þær uppskáru vítaspyrnu á 52. mínútu en Monica gerði sér lítið fyrir og varði ágæta spyrnu Kötu Cousins. Næstu mínútur fengu heimastúlkur nokkur álitleg hálffæri en Monica og vörn Tindastóls sáu við þeim. Skyndisóknir gestanna voru hins vegar hættulegar og á 75. mínútu var Þrótturum refsað. Laufey kom þá boltanum á Murr rétt innan við miðlínu og úr varð sígilt Murrskt ævintýri. Með tvo varnarmenn í bakinu náði hún að stinga boltanum upp vinstri kantinn og setja í túrbógírinn, skildi varnarmennina tvo eftir í ímynduðum rykmekki og þaut inn á vítateig Þróttara, gabbaði einn varnarmann til viðbótar áður en hún lagði allt í skotið og boltinn söng í netinu. Svona mörk gerir bara Murr og viðeigandi að gera 100. mark sitt fyrir Stólastúlkur með svona klassík.
Mesti móðurinn var af Þrótturum eftir þetta og Donni þjálfari gat leyft sér að skutla Skagastrandardömunum, Elísu og Birgittu, inn á í lokaátökin en þær eru 15 ára gamlar eins og Feykir hefur tönnlast á í sumar. Elísa fékk fleiri mínútur og kom vel inn í leikinn, átti sendingar sem sköpuðu hættu.
0-2 sigur staðreynd og Stólastúlkur lyftu sér á ný upp í sjöunda sætið sem ÍBV hafði stolið af þeim klukkutíma áður. Tindastólsliðið er nú með 18 stig, ÍBV 17 en í neðstu tveimur sætum deildarinnar eru Keflavík með 14 og Selfoss er neðst með 11 stig. Tindastólsliðið á tvo erfiða heimaleiki eftir áður en úrslitakeppnin hefst. Meistaralið Vals, sem þjálfað er af Pétri Péturs sem spilaði með og þjálfaði karlalið Tindastóls fyrir einum 30 árum, kemur í heimsókn á sunnudag kl. 17 og viku síðar mæta sameinaðir Akureyringar í Þór/KA á Krókinn. Ekki hafa Stólastúlkur komist vel frá viðureignum sínum við þessa sterku andstæðinga hingað til en það þarf ekki að leita lengra aftur en til leiksins í gærkvöldi til að sjá að það er hægt að brjóta niður ókleyfa veggi. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.