Hörmulegt tap Stólanna
Höttur frá Egilsstöðum mætti á Krókinn síðastliðinn laugardag og lék við lið Tindastóls í 2. deildinni í knattspyrnu. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Tindastólsmenn en með sigri hefði liðið náð að koma sér örlítið betur fyrir í deildinni. Uppskeran var hins vegar sárt tap, 1-2.
Leikurinn fór vel af stað og voru aðstæður ágætar á Sauðárkróksvelli. Strax eftir um 15 mínútna leik skoraði Fannar Gíslason fallegt mark, kappinn dúkkaði upp á markteig eftir hornspyrnu og skallaði af krafti í mark gestanna. Stólarnir höfðu verið betra liðið fram að þessu en eftir markið fengu gestirnir nokkur skallafæri og svo fór að þeir nýttu eitt slíkt á 25. mínútu. Hlynur í marki Stólanna virtist búinn að verja skalla frá Högna Helgasyni en missti boltann inn fyrir línuna og því orðið jafnt. Liðin skiptust á um að sækja fram að hléi og leikurinn ágæt skemmtun.
Stólarnir mættu hálf vankaðir til leiks í síðari hálfleik og létu gestina stundum líta út fyrir að vera lið Brasilíu. Reyndar er það varla ofsögum sagt að Stólarnir hafi verið vankaðir því nokkrir leikmenn fengu höfuðhögg á upphafskafla síðari hálfleiks og þurfti varnarjaxlinn Sigurvin Reynisson að yfirgefa völlinn á 56. mínútu. Það var skarð fyrir skyldi en gestirnir sóttu fast að marki Stólanna. Leikmenn Hattar fengu ágæt færi til að komast yfir og náðu því loks á 67. mínútu. Fengu þá hornspyrnu og Runólfur Sigmundsson stangaði boltann í netið á nærstönginni – ekki fyrsta markið í sumar sem Stólarnir fá á sig af þeim stað. Fátt fagurt gerðist eftir þetta en Stólarnir reyndu þó að stíga upp á lokakaflanum en höfðu engan veginn erindi sem erfiði. Lokatölur því 1-2.
Á sama tíma skaust lið Ægis upp fyrir lið Tindastóls og skildi þá eftir í fallsæti. Ægir sigraði lið Dalvíkur/Reynis en Stólarnir sækja Eyfirðingana einmitt heim í næstu umferð. Ekkert annað en sigur kemur til greina ætli Stólarnir að halda sæti sínu í deildinni. Koma svo Stólar!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.