Hlíðarendapiltar heimsækja Stóla í Fótbolti.net bikarnum
Í kvöld fara fram 16 liða úrslit í Fotbolta.net bikarnum. Liðsmenn Tindastóls munu skella á sig takkaskónum af þessu tilefni en strákarnir gerðu sér lítið fyrir og lögðu 2. deildar lið Reynis Sandgerði í 32 liða úrslitum fyrr í sumar, 2-0. Að þessu sinni mæta Hlíðarendapiltar á Krókinn.
Þá erum við ekki að tala um rándýrt lið Valsmanna því það eru neðri deildar liðin sem fá að sýna getu sína í Fótbolta.net bikarnum. Það eru nefnilega kempur í Knattspyrnufélagi Hlíðarenda, KH, sem heimsækja sumarið á Norðurlandi en spáð er 17 stiga hita og hóflegri norðanátt þegar leikurinn hefst kl. 18:00.
Reikna má með hörkuleik þó svo að hér sé ekki um spariútgáfu Hlíðarendapilta að ræða en KH, sem spilar í 4. deild líkt og lið Tindastóls, bar sigurorð af Stólunum fyrr í sumar á sínum heimavelli. Það er fjallgrimm vissa fyrir því að Króksarar vilji kvitta fyrir þau ósköp og koma sér áfram í átta liða úrslitin.
Stuðningsmenn eru hvattir til að taka út sumarið á Sauðárkróksvelli og hvetja sína menn til sigurs. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.