Helgi stoltur af öllum stelpunum
„Ég veit ekki með lukku en það munaði allavega ótrúlega mjóu í síðustu tveimur leikjum að sigurinn hefði verið okkar,“ sagði Helgi þjálfari Margeirsson þegar Feykir spurði hann hvort það hefði bara verið lukkan sem réð úrslitum í viðureign Tindastóls og Aþenu í gærkvöldi. Aþena hafði betur eftir hnífjafnan leik og tryggði sér því sæti í Subway-deildinni, sigraði einvígi liðanna 3-1.
„Þegar tvö svona jöfn lið mætast þá skiptir hvert smáatriði máli. Okkar akkillesarhæll í þessu einvígi voru tapaðir boltar sem oftar en ekki skiluðu auðveldum körfum fyrir Aþenu. En ótrúlega skemmtileg rimma og mikilvæg í reynslubankann,“ sagði Helgi.
Hvernig fannst þér rimman í gærkvöldi? „Leikurinn í gær var góður og spennandi út í gegn. Við byrjum vel fannst mér, náum að refsa pressuvörn þeirra og erum að keyra vel á þær og skorum mikið inn í teig. Aþena setja hins vegar margar þriggja stiga körfur í hálfleiknum sem heldur leiknum jöfnum. Seinni hálfleikurinn spilast svo svipað, mikil barátta áfram og allar að gefa allt í þetta en þetta datt bara ekki með okkur í þetta skiptið.“
Hvað finnst þér um árangur Tindastólskvenna að loknu tímabili, var markmiðum náð? „Ég er gríðarlega stoltur af öllum stelpunum sem einstaklingum og þeirri liðsheild sem okkur tókst að mynda í vetur. Þær eru búnar að þroskast mikið bæði sem leikmenn og liðsfélagar í vetur sem er stór partur af árangri liðsins. Þetta leynist engum sem hefur fylgst með liðinu.“
Hvert er næsta skref – verður stefnan sett á að fara skrefi lengra næsta tímabil? „Þegar ég kom inn fyrir tímabilið að þá var ákveðið að félagið ætlaði að gera þetta vel, leggja mikinn metnað í starfið, umgjörðina fyrir stelpurnar og byggja upp lið sem myndi vinna sig upp í Subwaydeildina í nánustu framtíð. Ég tel okkur hafa gert þetta vel í vetur og markmiðið stendur enn.“
Í lokin vill Helgi þakka Athenu fyrir hörku úrslitarimmu og óska þeim til hamingju með að vinna sig upp í Subway deildina.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.