Helgi Margeirs nýr þjálfari meistaraflokks kvenna!
Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur samið við Helga Frey Margeirsson um að taka að sér þjálfun meistaraflokks kvenna. Í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Tindastóls segir að Helgi muni einnig stýra Körfuboltaakademíu FNV sem og að vinna við að sinna Evrópukeppnisverkefni meistaraflokks karla.
„Helgi Freyr hefur unnið ötullega að uppbyggingu körfuboltastarfsins, bæði sem leikmaður, þjálfari, sjálfboðaliði og öflugu starfi Körfuboltaskóla Norðurlands. Það er markmið Körfuknattleiksdeildar Tindastóls að byggja upp öflugt starf til framtíðar, að halda úti öflugu kvennaliði jafnt sem karlaliði og að þær spili í deild hinna bestu innan fárra ára,“ segir í tilkynningunni.
Helga þarf auðvitað ekki að kynna fyrir Skagfirðingum og stuðningsmönnum Tindastóls eftir langa og laglega veru hans á körfuboltaparketinu um langt árabil. Í vor varð hann Íslandsmeistari með karlaliði Tindastóls, þá sem aðstoðarþjálfari. Feykir óskar Helga til hamingju með ný spennandi störf fyrir körfuknattleiksdeild Tindastóls.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.