Haukarnir kærðu bikarleikinn

Hart barist í leik Tindastóls og Hauka í VÍS bikarnum. Ekki er enn útséð með hvort liðið mun hafa betur og mæta Njarðvíkingum í 16 liða úrslitum. MYND: DAVÍÐ MÁR
Hart barist í leik Tindastóls og Hauka í VÍS bikarnum. Ekki er enn útséð með hvort liðið mun hafa betur og mæta Njarðvíkingum í 16 liða úrslitum. MYND: DAVÍÐ MÁR

Karlalið Tindastóls í körfunni fékk frí um helgina en liðið átti að spila við Njarðvíkinga fyrir sunnan í gær í 16 liða úrslitum VÍS. bikarsins. Ástæðan, eins og öllum ætti að vera kunnugt, er svindl (!) Tindastólsmanna þegar óvart fjórir erlendir leikmenn voru inni á vellinum þegar víti voru tekin. Það var brot á reglum. Í framhaldinu var talað um að Haukar mundu kæra atvikið og verða dæmdur sigur í leiknum en síðan var hald manna að KKÍ hefði tekið málið yfir og sett það í farveg. Í frétt Vísis í dag kemur hins vegar fram að það voru Haukar sem á endanum kærðu.

Fram kemur í spjalli Vísis við Hannes S. Jónsson, formann KKÍ, að kærufrestur hafi runnið út sl. mánudagskvöld. Sökum anna á skrifstofu KKÍ hafi ekki verið búið að ganga frá kærunni á mánudagsmorgni. Áður en KKÍ náði að vísa málinu til aganefndar hafi komið í ljós að Haukar voru tilbúnir með kæru og hætti þá KKÍ við sína kæru.

Flestir sérfræðingar sem hafa tjáð sig um þetta óheppilega mál voru á þeim buxunum að best væri fyrir alla að KKÍ vísaði málinu til aganefndar, ekki Haukar. Hannes segir í spjallinu við Vísi að ekki sé hægt að hafa tvær kærur í málinu. „Við stýrum ekki því sem Haukar ákveða að gera,“ segir formaðurinn.

Reikna má með að niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu annað hvort í næstu eða þarnæstu viku og Njarðvíkingar þurfa því að bíða um sinn eftir að fá lið Tindastóls og Grettismenn í Ljónagryfjuna – nú eða þá Hauka og nokkra eldhressa Hafnfirðinga til viðbótar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir