Hákon Ólympíufari bæði húnvetnskur og skagfirskur

Hákon Þór Svavarsson stórskytta keppir nú á Ólympíuleikunum. SKJÁSKOT AF RÚV
Hákon Þór Svavarsson stórskytta keppir nú á Ólympíuleikunum. SKJÁSKOT AF RÚV

Ólympíuleikarnir standa nú sem hæst í París í Frakklandi og í dag keppti Hákon Þ. Svavarsson í skotfimi. Skagfirskur íbúí í Mosfellsbæ hafði samband við Feyki af þessu tilefni og tilkynnti að hann hefði hitt konu í ræktinni í morgun sem sagði honum að Svavar þessi væri af skagfirskum ættum.

Feykir hafði reyndar verið tekinn í bólinu kvöldið áður þegar annar skagfirskur íbúi Mosfellsbæjar, Gunnar nokkur Birgisson, sagði þjóð sinni frá því að Hákon, sem býr á Selfossi, hefði alið manninn á Blönduósi.

Ræktarkonan, sem einnig var skagfirskrar ættar, sagðist aftur á móti vita af skagfirskum tengslum Hákons þar sem hann væri frændi hennar. Þetta kveikti að sjálfsögðu áhugann hjá okkar manni í ræktinni sem lagðist í rannsóknir. Og þetta stóð heima.

Hákon er sonur Svavars Hákonar Jóhannssonar, bónda í Litladal í fyrrum Húnavatnshreppi. Svavar er bróðir Jóhanns Más, bónda í Keflavík í Hegranesi, og þá að sjálfsögðu Kristjáns Jóhannssonar en þeir stórsöngvarar eru synir Jóa heitins Konn, sömuleiðis stórsöngvara á Akureyri. Í gömlu DV fundust þær ættarlýsingar að móðir Jóa, „,,, var Svava, systir Jónasar, föður Kára, fréttastjóra Ríkisútvarpsins, og Mínervu, ömmu Guðríðar Haraldsdóttur dagskrárgerðarmanns. Svava var dóttir Jósteins, b. í Naustavík í Hegranesi, Jónssonar b. og smáskammtalæknis í Hróarsdal í Hegranesir, Jónssonar.“ Nú hringir bjöllum hjá skörpustu hnífunum í ættfræðiskúffum landsmanna en þetta þýðir að móðir Jóa Konn, og þar með langamma Hákons, var skagfirsk.

Þetta setur Ólympíuleikana að sjálfsögðu í allt annað samhengi fyrir okkur íbúa á hinu stórmagnaða Norðurlandi vestra.

Á RÚV sagði nú seinnipartinn að Hákon Þór Svavarsson hafi skorað 23 stig af 25 í öllum þremur umferðum dagsins í haglabyssuskotfimi á leikunum í dag. Hann er því samtals með 69 stig að loknum fyrri keppnisdegi í undankeppni og er í 22. sæti af 30 keppendum. Tvær umferðir eru eftir og fara þær fram á morgun en ef Feykir skilur rétt er þetta ein af fáum greinum sem ekki er send út í beinni útsendingu.

Áfram Hákon!

- - - - -
UPPFÆRT dögum síðar: Feykir þakkar vel þegnar leiðréttingar á þessari ættfræðiúttekt og biðst afsökunar á flumbrugangi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir