Guðmundur Guðmundsson hættur með landsliðið

HSÍ og Guðmundur Þ. Guðmundsson hafa komist að samkomulagi um starfslok Guðmundar sem landsliðsþjálfari karla í handbolta. Þetta var tilkynnt á heimasíðu sambandsins fyrr í dag. Samkomulagið er í sátt beggja aðila og ekki stendur til að tjá sig frekar um innihald þess, segir í tilkynningunni. Guðmundur  hefur þjálfað íslenska landsliðið í samtals 14 ár og hefur sem þjálfari komið íslenska landsliðinu inn á 16 stórmót, þar af þrenna Ólympíuleika.

„Þegar Guðmundur tók við landsliðinu í þriðja skiptið árið 2018 var sett fram það markmið að koma landsliðinu aftur í fremstu röð, að verða meðal átta bestu landsliða heims. Á EM 2022 í Ungverjalandi náðist það markmið er liðið endaði í 6. sæti.

Guðmundur Þ. Guðmundsson hefur náð frábærum árangri með íslenska landsliðið og nægir að nefna silfur á Ólympíuleikunum 2008 í Beijing, bronsverðlaunum á EM 2010 í Austurríki, 4. sæti á EM 2002 í Svíþjóð, 7. sæti á HM 2003 í Portúgal, 6. sæti á HM 2011 í Svíþjóð og 5. sæti á Ólympíuleikunum 2012 í London og 6. sæti á EM 2022 í Ungverjalandi,“ segir í frétt HSÍ. Það kemur jafnframt fram að Guðmundur sé eini þjálfarinn í sögu íslensks handbolta sem hefur unnið til verðlauna á stórmóti með íslenska karlalandsliðinu í handbolta.

Þá er hann eini handknattleiksþjálfarinn í sögunni sem farið hefur með landslið tveggja mismunandi þjóða í úrslitaleik á Ólympíuleikum, landslið Íslands sem vann silfur, og landslið Danmerkur sem varð Ólympíumeistari í Ríó 2016.

Það er vissulega sjónarsviptir af þessum litríka þjálfara og á þessari stundu klóra menn sér í höfðinu hvernig sambandið ætli að snúa sér í málinu varðandi arftaka Guðmundar en aðeins eru tvær vikur í næsta leik þegar fyrsti leikurinn í undankeppni EM fer fram þann 6. mars gegn Tékkum. Sex dögum síðar er leikur númer tvö og svo eru tveir leikir á dagskrá seinni hluta aprílmánaðar.

Uppfært
Ágúst og Gunnar stýra landsliðinu

Mbl.is segir frá því að Ágúst Þór Jóhannsson og Gunnar Magnússon muni stýra íslenska karlalandsliðinu í leikjum þess í undankeppni EM í handbolta í mars og apríl. Þetta fékk mbl.is staðfest hjá Guðmundi B. Ólafssyni, formanni Handknattleikssambands Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir