GSS með tvo Norðurlandsmeistara
Norðurlandsmótaröð barna og unglinga er lokið þetta sumarið. Lokamótið fór fram á Akureyri laugardaginn 29.ágúst sl. á Jaðarsvelli. Um 50 þátttakendur voru á mótinu af öllu Norðurlandi í öllum flokkum og átti Golfklúbbur Sauðárkróks 14 þeirra.
Þau stóðu sig öll með mikilli prýði eins og á öðrum mótum mótaraðarinnar í sumar. Flokkarnir eru kynjaskiptir. Þau sem hlutu verðlaun í mótinu voru í flokki 12 ára og yngri, Anna Karen Hjartardóttir sigraði í sínum flokki og og Reynir Bjarkan B. Róbertsson varð í þriðja sæti í sínum flokki. Í flokki 14 ára og yngri varð Hildur Heba Einarsdóttir í 3. sæti og Hákon Ingi Rafnsson varð einnig í 3.sæti. Í flokki 17-21 árs varð síðan Elvar Ingi Hjartarson í 3.sæti. Öll önnur úrslit er að finna á www.golf.is.
Samhliða þessu er síðan stigakeppni þar sem 3 bestu mótin af 4 eru talin skv. stigagjöf GSÍ og þannig eru fundnir út hverjir eru Norðurlandsmeistarar í sínum flokki. Heildarstigagjöfina má finna á nordurgolf.blog.is. Kylfingar frá Golfklúbbi Sauðárkróks voru ofarlega í mörgum flokkum en það voru tvær stúlkur sem hömpuðu Norðurlandsmeistaratitli í sínum flokkum. Anna Karen Hjartardóttir sigraði í flokki 12 ára og yngri og Hildur Heba Einarsdóttir sigraði í flokki 14 ára og yngri.
Þó svo að formlegu keppnishaldi sé lokið hjá börnum og unglingum þá er Hlíðarendavöllur í sínu besta standi og um að gera að spila sem lengst inn í haustið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.