Grindvíkingar Kane-lausir í Síkinu á mánudaginn
Íslandsmeistarar Tindastóls leika annan leik sinn í úrslitakeppni Subway-deildarinnar á mánudagkvöld og fer leikurinn fram í Síkinu. Grindvíkingar verða þá án eins af lykilmönnum sínum þar sem aga- og úrskurðarnefnd KKÍ dæmdi í gær DeAndre Kane í eins leiks bann vegna háttsemi sinnar eftir leik í 21. umferð deildarkeppninnar.
„Með vísan til ákvæðis c. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál skal hinn kærði, DeAndre Kane, sæta eins leiks banni vegna háttsemi sinnar eftir leik Stjörnunnar og Grindavíkur, Subwaydeild karla, sem fram fór þann 28. mars 2024,“ hljómaði úrskurður nefndarinnar. Grindvíkingar hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir gagnrýna vinnubrögð KKÍ.
Grindvíkingar eru ósáttir við KKÍ en að öllu jöfnu hefði Kane átt að taka út bann í síðustu umferð deildarkeppninnar en pósturinn frá KKÍ til Grindvíkinga rataði ekki í rétt netfang og dróst því að taka málið fyrir. Raunar stóð fyrst til að Kane færi í tveggja leikja bann en það var stytt í einn leik – kannski vegna mistaka KKÍ við póstsendinguna? Ef um tveggja leikja bann hefði verið að ræða og kæran tekin fyrir á réttum tíma, hefði Grindavík verið án Kane í lokaleik deildarkeppninnar og fyrsta leiknum í rimmu Grindavíkur og Tindastóls.
Kane er sannarlega einn af betri leikmönnum Subway-deildarinnar og skellur fyrir Grindvíkinga að vera án hans. Það er þó kristaltært að Stólarnir mega ekki við því að að vanmeta lið Grindavíkur sem virðist oftar en ekki stíga upp þegar á brattann er að sækja.
Nú er svo bara að vona að slökkviliðsstjórinn á hliðarlínunni nái að tendra neistann í leikmönnum sínum og nái að kynda upp svolítið bál – slökkvi frekar bálið í leikglöðum Grindvíkingum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.