Gríðarleg pressa á Stólunum sem sigruðu Þórsara í gær
„Þarna mætti liðið sem við reiknuðum með í byrjun,“ segir Ingólfur Jón Geirsson stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild Tindastóls eftir góðan sigur Stólanna á grönnum sínum Þór frá Akureyri 94-82 á Sauðárkróki í gærkvöldi. Mamadou Samb var stigahæstur Stóla með 25 stig, Pétur Rúnar Birgisson 20 og Cristopher Caird setti16 stig. Pape Seck annar Senegalanna í liðinu lék í tæpar 16 mínútur í gær og skoraði 11 stig.
Það voru gestirnir sem opnuðu markareikninginn þegar Darrel Lewis setti 2 stig á fyrrum félaga sína en forustuna héldu þeir aðeins í tæpa mínútu. Stólarnir voru ákveðnir í að gera betur en í síðasta leik og gekk það eftir þó þeir næðu aldrei að hrista Þórsarana af sér fyrr en í lokin. Leikurinn var jafn og spennandi allt fram að 33. mínútu þegar heimamönnum tókst að síga framúr eftir að staðan var jöfn 69-69 og lönduðu góðum sigri 94-82. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 19:16, annan fjórðung 48:44 og svo þriðja 66:65.
Ingólfur Jón segist hafa verið ánægður með liðið í heild og aðspurður um erlendu leikmennina, með þá líka. Pape Seck lék ekki á móti KR þar sem hann var ekki kominn með leikheimild en hann er með Senegalskt vegabréf meðan hinn er með Spánskt. Viðar lék ekki með í gær vegna meiðsla og segir Ingólfur að hans væri sárt saknað.
Helgi Freyr Margeirsson segir að úrslit leiksins vera mikinn létti þar sem gríðarleg pressa hafi verið á liðinu. „Liðið ætlaði klárlega að gera betur en á móti KR enda var hann slæmur frá A-Ö af okkar hendi. Við komust aldrei í takt við þann leik,“ segir Helgi og viðurkennir að það hafi verið ákveðið stress fyrir þennan leik. Bæði hafi væntingarnar verið miklar til liðsins í haust og fallið þ.a.l. hátt eftir fyrsta leik og menn ætluðu sér ekki að gera sömu mistök aftur.
„Við lögðum leikinn upp frekar einfalt í sókninni, einfaldar aðgerðir og varnarlega að vera fastir fyrir og ekki hleypa mönnum inn í okkur. Við ætluðum að reyna að halda Þórsliðinu undir 20 stigunum í hverjum leikfjórðungi en það tókst ekki alltaf en vorum nálægt því. Í heildina skoruðu þeir 82 stig og þar af fimm á síðustu 40 sekúndunum. Við vorum á takmarkinu okkar. Og það skiptir máli, þannig viljum við spila, við viljum ekki fara í skorkeppni, viljum spila góða vörn. Persónulega finnst mér að við hefðum getað skilið við Þórsarana nokkrum sinnum í leiknum. Við vildum vera agressívir og vera í andlitinu á þeim og það gekk vel en við gáfum þeim allt of mörg auðveld stig.“
Sérstaka athygli vakti svokallaður Haka-dans sem stiginn var fyrir leik en þar voru á ferðinni Nýsjálendingar sem starfa á sláturhúsi KS. Óhætt er að segja að þeir hafi slegið í gegn með atriði sínu og gefið aukakraft inn á völlinn en ekki síður í áhorfendastúkuna.
Myndir Hjalta Árna frá leiknum má finna á Facebooksíðu körfuboltdeildar Tindastóls.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.