Grannaslagur í Höllinni á Akureyri í kvöld

Klara Sólveig í leik gegn Stjörnunni í haust. MYND: SIGURÐUR INGI
Klara Sólveig í leik gegn Stjörnunni í haust. MYND: SIGURÐUR INGI

Það er þokkalegur stórleikur í körfunni í kvöld en þá mæta Stólastúlkur erkifjendunum í liði Þórs en leikurinn fer fram í Höllinni á Akureyri og hefst kl. 19:15. „Leikurinn leggst mjög vel í okkur, það er alltaf ákveðin spenna að fara á Akureyri,“ sagði Klara Sólveig Björgvinsdóttir fyrirliði Tindastóls þegar Feykir spurði út í leikinn. „Ég á von á hörkuleik, Þórs stelpurnar eru vanar að berjast þannig ég held að þetta verði mjög skemmtilegur leikur.“

Nú eru fjórar umferðir búnar í Bónus deildinni, er eitthvað sem hefur komið þér og liðinu á óvart? „Nei, ekkert endilega. Við vissum að þetta er aðeins öðruvísi heldur en 1. deildinni og að við þyrftum að mæta 100 prósent í alla leiki.“

Er einhver leikur sem þú ert extra spennt fyrir í vetur? „Það er alltaf ákveðin spenningur að spila á móti Þór Akureyri en einnig er mjög gaman að máta sig á móti þeim liðum sem hafa verið í fremstu röð seinustu ár.“

Ertu sátt við byrjunina hjá liði Tindastóls? „Já, ég er mjög sátt. Við höfum verið að glíma við smá meiðslavandræði en erum með hörku hóp og eigum góðan möguleika á að standa okkur vel í vetur,“ segir Klara Sólveig.

Nú er bara um að gera að drífa sig norður en þó vissara að fylgjast með færðinni því spáð er snjókomu á Öxnadalsheiðinni og dulitlum vindi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir