Golfklúbbur Sauðárkróks með tvo Norðurlandsmeistara

Norðurlandsmeistararnir Anna Karen Hjartardóttir og Hildur Heba Einarsdóttir. Mynd: Hjörtur Geirmundsson
Norðurlandsmeistararnir Anna Karen Hjartardóttir og Hildur Heba Einarsdóttir. Mynd: Hjörtur Geirmundsson

Lokamót Norðurlandsmótaraðar barna og unglinga fór fram á Jaðarsvelli á Akureyri sunnudaginn 4. september s.l. Að venju átti Golfklúbbur Sauðárkróks marga þáttakendur í öllum flokkum sem keppt var í. Þá voru einnig krýndir Norðurlandsmeistarar í öllum flokkum og þar átti Golfklúbbur Sauðárkróks tvo sigurvegara.

Það voru þær Anna Karen Hjartardóttir sem varð Norðurlandsmeistari í flokki 12 ára og yngri og Hildur Heba Einarsdóttir sem varð Norðurlandsmeistari í flokki 14 ára og yngri.  Báðar voru þær að verja Norðurlandsmeistaratitla sína í þessum flokkum frá því í fyrra. Fjögur mót eru í mótaröðinni og telja þrjú bestu til titilsins. Keppt var á Sauðárkróki, Dalvík, Ólafsfirði  og loks Akureyri.

Helstu úrslit úr lokamótinu sjálfu hjá keppendum Golfklúbbs Sauðárkróks voru þessi:

Í byrjendaflokki sigraði Una Karen Guðmundsdóttir og Rebekka Helena Barðdal Róbertsdóttir varð í öðru sæti. Reynir Bjarkan Barðdal Róbertsson varð í öðru sæti í flokki 12 ára og yngri og Anna Karen Hjartarsdóttir varð í þriðja sæti í sama flokki.  Maríanna Ulriksen varð í öðru sæti í flokki 14 ára og yngri og Hildur Heba Einarsdóttir í þriðja sæti í sama flokki. Í flokki 15-16 ára varð Telma Ösp Einarsdóttir í öðru sæti og Hákon Ingi Rafnsson varð einnig í öðru sæti í sama flokki.

Allar nánari upplýsingar um mótið er að finna á www.golf.is

Keppendur Golfklúbbs Sauðárkróks voru mjög dugleg að sækja þessa mótaröð í allt sumar og náðu flottum árangri og voru til fyrirmyndar bæði á golfvellinum sem utan hans.

/HG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir