Góður sigur Tindastóls í Eyjum

Karlalið Tindastóls spilaði í dag fyrsta leik sinn þetta sumarið í 4. deildinni. Strákarnir sátu hjá í fyrstu umferðinni þar sem leiknum sem vera átti á Króknum í síðustu viku var frestað um mánuð vegna vallaraðstæðna. Því var fyrsti leikur liðsins strembinn útileikur gegn liði KFS á Týsvellinum í Vestmannaeyjum. Stólarnir gerðu sér þó lítið fyrir og lögðu heimamenn í gras. Lokatölur 1-3.

Það var Addi Ólafs sem kom liði Tindastóls á bragðið á 12. mínútu og tíu mínútum síðar tvöfaldaði Manuel Ferriol Martinez forystu gestanna. Staðajn 0-2 í hálfleik. Spenna hljóp í leikinn þegar Heiðmar Þór Magnússon minnkaði muninn á 54. mínútu. Á 91. mínútu kom Jóhann Daði inn fyrir frænda sinn, Jónas Aron, og það var hann sem gulltryggði sigur Tindastóls þegar hann skoraði úr vítaspyrnu á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Lið Tindastóls var þannig skipað að Nikola var mættur í markið en útileikmenn voru Sverrir Hrafn fyrirliði, David Bercedo, Dom Furness, David Bjelobrk, Jónas Aron, Konni, Josu Perurena, Addi Ólafs, Hólmar Daði og Manuel. Bragi Skúla, Jóhann Daði og Benedikt Gröndal komu inn á en ónotaðir varamenn voru Gunnar Hauks, Svend Emil, Ivan og Hlib.

Næst eiga Stólarnir að fá Hamar í heimsókn mánudaginn 20. maí en það á eftir að koma í ljós hvort unnt verður að spila hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir