„Góður leikur af okkar hálfu,“ segir Donni þjálfari þrátt fyrir tap Stólastúlkna
„Eftir versta tímabil sitt í áratug mætir Breiðablik með glorhungrað og öflugt lið til leiks í sumar sem ætlar sér að komast aftur á toppinn í íslenskum fótbolta,“ segir í frétt íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports sem spáir liðinu 3. sæti Bestu deildar kvenna í sumar. Stólastúlkum er hins vegar spáð 9. sæti og þar með falli niður Lengjudeildina eftir sumarið. Liðið sýndi í gær að það er á annarri skoðun og mættar til að vera.
Það voru einmitt Breiðabliksstúlkur sem mættu á Krókinn í gærkvöldi og fyrirfram mátti búast við að heimastúlkur ættu við ofurefli að stríða. Efalaust voru einhverjir áhorfendur sem misstu móðinn fljótlega því ekki var langt liðið á leikinn þegar Taylor Marie Ziemer kom gestunum yfir 1-0.
Skagfirska sveiflan tók þó stefnuna heldur upp á við eftir þetta högg og heimakonur sýndu það að þær væru ekki í þessu bara til að vera með og áhorfendur fengu trúna á ný að allt eins gætu Stólar jafnað. Gáfu þær gestunum alvöru leik og áttu mörg fín færi sem var ótrúlegt að ekki nýttust. Allt stefndi í að Breiðablik færi með eins marks forystu í leikhléið en Taylor Ziemer var ekki búin að segja sitt síðasta því á 42. mínútu negldi hún boltanum í samskeytin af löngu færi, einkar glæsilegt mark og algerlega óverjandi fyrir Monica Elisabeth Wilhelm, markvörð Stóla. Monika sem stóð sig þó með stakri prýði í markinu í leiknum.
Eins og áður segir gáfu Stólastúlkur gestunum alvöru leik og fannst manni eins og mark lægi í loftinu en einhverra hluta vegna lánaðist þeim ekki að skora þrátt fyrir góð færi. En Breiðabliksliðið er feiknasterkt og átti einnig fjölmörg færi sem sem vel hefði kostað fleiri mörk sem svo varð raunin undir lok leiksins þegar Andrea Rut Bjarnadóttir, sem nýkomin var inn á, potaði boltanum yfir marklínuna og tryggði gestunum stigin þrjú.
„Mér fannst þetta góður leikur af okkar hálfu. Ég er mjög stoltur af stelpunum og sé mikla bætingu frá síðasta leik sérstaklega á sóknarhelming og það gegn besta liði landsins,“ sagði Donni þjálfari í samtali við Feyki.
„Varnarlega voru stelpurnar heilt yfir nokkuð góðar og mörkin sem við fáum á okkur í fyrri hálfleik tvö langskot sem var erfitt að koma í veg fyrir þótt mögulega hægt sé að vera ögn nær mönnunum. Annars var varnarleikurinn heilt yfir og markvarslan góð. Barráttan og vinnusemin alveg frábær og með þessu áframhaldi fara úrslit að detta líka með okkur.
Við fengum 3-4 mjög góð færi í leiknum og oft þarf bara að brjóta ísinn til að þetta fari að flæða inn frá okkur. Það er hins vegar mjög jákvætt að við erum að fá góð færi og þetta mun fara að fara inn frá okkur.“
Hann segir liðið hafa spilað sinn leik og gert það vel og uppleggið fyrir næsta leik sé auðvitað hið sama. „Þá að halda áfram að byggja ofan á og verða ennþá betri í því sem við erum að gera. Stelpurnar eru alveg frábærar og eru að gefa sig allar í þetta og það er ekki hægt að biðja um meira en það,“ segir Donni og bætir við: „Síðan vil ég koma þökkum til þeirra sem komu að styðja stelpurnar okkar, fyrir það erum við mjög þakklát og það skiptir öllu máli í okkar barráttu.“
Leikskýrslu má finna HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.