Góður sigur á liði Uppsveita Árnessýslu
Tindastólsmenn spiluðu fyrsta leik sinn í 4. deildini þetta sumarið í dag en þá kom lið Uppsveita í heimsókn á Krókinn. Leikurinn var ágæt skemmtun og hvorugt lið gaf þumlung eftir. Stólarnir voru lengstum betra liðið og uppskáru tvö mörk, eitt í hvorum hálfleik, en gestirnir minnkuðu muninn skömmu fyrir leikslok og sáu jöfnunarmarkið í hillingum. Það kom þó ekki og Stólarnir nældu því sanngjarnt í þrjú stig. Lokatölur 2-1.
Stólarnir hófu leik með Alejandro í markinu, Domi og Sverri í miðju varnarinnar og Anton Örth og Bragi Skúla í bakverðinum. Dom Furness, Donni og Sigurður Pétur á miðjunni, Addi Ólafs og Jón Gísli á könrunum og Jónas Aron frammi.
Heimamenn voru skarpir í fyrri hálfleik og kannski það eina sem vantaði var alvöru markamaskína frammi. Stólarnir náðu oft að búa sér til góðar stöður en gekk illa að skapa sér verulega góð færi en oft vantaði aðeins herslumuninn. Fyrsta markið kom eftir fast leikatriði á 17. mínútu en þá fékk Sverrir færi en fékk boltann aftur og náði að leggja hann fyrir sig og planta boltanum efst í fjærhornið. Vel gert. Stólarnir réðu ferðinni á miðjunni með þá Dominic, Konna og Sigurð Pétur að stjórna umferðinni. Staðan 1-0 í hálfleik.
Það reyndist oft vandamál í fyrrasumar að halda haus í 90 mínútur. Stólarnir voru ekki eins ákafir í sínum aðgerðum framan af síðari hálfleik og gestirnir komust betur inn í leikinn. Domi og Sverrir áttu hins vegar nánast fullkominn leik í vörninni og átu allt upp til agna sem gestirnir lögðu á borð fyrir þá. Smám saman fóru að myndast opnanir í vörn Uppsveita þegar þeir fóru að færa sig framar og Stólarnir voru búnir að klúðra nokkrum álitlegum sénsum áður en Jónas Aron náði að bæta við marki á 70. mínútu. Í stöðunni 2-0 fór af stað talsverð skiptingahringekja og þó svo að Stólarnir héldu áfram að skapa hættu fram á við þá virkaði varnarleikurinn ekki jafn traustvekjandi. Það kom engu að síður upp úr þurru þegar gestirnir minnkuðu muninn. Alejandro sló hornspyrnu gestanna út úr teignum og þegar Stólarnir færðu liðið framar þá voru skyndilega tveir gestir á auðum sjó í teignum þegar boltinn var sendur inn fyrir og Máni Snær Benediktsson skoraði. Lokamínúturnar reyndu gestirnir að jafna allt hvað af tók en þeir fengu enga sénsa og Stólarnir héldu þetta út.
Góður sigur því staðreynd á liði sem spáð var svipuðu gengi og liði Tindastóls, það er að segja um miðja deild. Margir leikmenn Tindastóls sýndu góða takta en að öðrum ólöstuðum þá áttu Sigurður Pétur og Dominic góðan leik á miðjunni og Dom og Sverrir í vörninni. Alejandro er ekki stór markvörður en hann gerði sitt vel, var snarpur og með öflugan talanda en var gjarn á að vilja kýla boltann frá markinu í fyrirgjöfum. Ekki var boðið upp á jafntefli í fyrstu umferð 4. deildar en Stólarnir heimsækja eitt af liðunum sem sömuleiðis er með þrjú stig, Vængi Júpíters, í næstu umferð. Leikið verður á Fjölnisvellinum í Grafarvogi Reykvíkinga föstudag kl. 19:15.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.