Glötuð úrslít í kökuskreytingakeppni ULM 2023
„Þetta var geggjað havarí og svakalegt stuð. Aðsóknin var rosaleg en allir skemmtu sér vel og fóru glöð út með flottar kökur. Ég er rosalega stoltur af því hvað þetta tókst vel,‟ segir bakarameistarinn Róbert Óttarsson, sem var sérgreinarstjóri í keppni í kökuskreytingum á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki.
Þátttaka í kökuskreytingum sprakk út á Unglingalandsmótinu og fór langt fram úr væntingum. Rétt tæplega 400 ungmenni á aldrinum 11 til 18 ára voru skráð til leiks. Slíkur var fjöldinn að breyta þurfti áður auglýstri dagskrá og skipta keppendum í þrennt til að koma öllum fyrir í íþróttahúsinu. Upphaflega var gert ráð fyrir að keppnin tæki tvær klukkustundir. Raunin varð hins vegar sú að keppnin stóð nokkuð stanslaust yfir í fimm klukkustundir.
„Við þurftum að fjölga dómurum því nánast ekkert hlé var á milli holla. Þegar eitt lauk keppni beið annar hópur ungmenna við útidyrnar,‟ segir Róbert og bendir á að ýmislegt hafi farið úr skorðum þegar yngsti aldursflokkurinn hafi keppt. Gera þurfti svo marga kökubotna að allt var út um allt. Eftir afhendingu verðlauna týndi svo Róbert úrslitablaðinu og mundi hann ekki nöfnin á neinum.
„Liðin hétu svo skemmtilegum nöfnum eins og Stuðgellurnar, Flugvélagellurnar og öðrum skrautlegum nöfnum. En við lærðum mikið af fyrsta hollinu og magnað hvað allt rúllaði vel áfram,‟ segir Róbert og getur ekki með nokkru móti munað hvaða lið voru í fyrstu þremur sætunum og ekki heldur nöfnin í einstaklingskeppnunum.
Eftirsótt að skreyta kökur
Kökuskreytingar er tiltölulega nýleg grein á Unglingalandsmóti UMFÍ og eru vinsældir hennar gríðarlega miklar. Ljóst er af vinsældunum og góðri skráningu í aðrar óhefðbundnar greinar, að þátttakendur leita eftir nýjum útfærslum á klassískum íþróttum og nýjum greinum til að prófa.
Á meðal greinanna sem þátttakendur skráðu sig í voru grasblak, grashandbolti, blindrabolti, bandý og margar fleiri.
Verðlaunaafhendingar tóku því talsverðan tíma. Þátttakendur höfðu hins vegar mun meiri ánægju af því að skreyta kökurnar undir vökulum augum áhorfenda sem sátu þétt á áhorfendapöllum. Sýnt var frá kökuskreytingunni á stórum skjá íþróttahússins og gekk fjölmiðlakonan María Björk Ingvadóttir á milli keppenda og ræddi við þá um skreytingarnar.
Þema kökuskreytingakeppninnar í ár var fjölbreytileiki. Þátttakendur í keppninni útfærðu þemað með ýmsum skemmtilegum hætti.
/umfi - jab
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.