Geggjaðir Grindvíkingar í Síkinu
Það er rétt að byrja á því að hrósa Grindvíkingum, þeir voru frábærir í gær og verðskulduðu sigur í Síkinu, þegar þeir mættu liði Tindastóls í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni Subway-deildarinnar en þeir leiða nú einvígið 2-0. Gestirnir náðu yfirhöndinni seint í fyrsta leikhluta og léku við hvern sinn fingur þar til þriðji leikhluti var úti en þá var munurinn 32 stig. Þrátt fyrir að Stólarnir gerðu fyrstu 21 stig fjórða leikhluta voru þeir í raun aldrei nálægt því að jafna leikinn – hvað þá að vinna hann. Lokatölur voru 88-99 og ljóst að lið Tindastóls þarf að finna góðan skammt af galdradufti til að snúa þessu einvígi við.
Það leit svo sem ekki út fyrir annað en spennuleik fyrstu mínúturnar. Gestirnir voru skrefinu á undan en tveir þristar frá Pétri sáu til þess að Stólarnir voru vel inni í leiknum. Staðan var 18-19 þegar sjö mínútur voru liðnar og 21-24 þegar ein og hálf mínúta var eftir af fyrsta leikhluta. Allt í gúddí þar til allt í einu. Fjórum og hálfri mínútu síðar höfðu gestirnir bætt við 20 stigum en Stólarnir tveimur, staðan 23-44.
Lið Grindavíkur hefur spilað frábærlega frá áramótum, leikmenn fullir af orku og sjálfstrausti, ósigrandi herflokkur mættur í Síkið landsfræga án eins besta leikmanns síns en það skipti þá engu máli. Þeir skutu úr hvaða færi sem var og skoruðu. Og Stólarnir skoruðu, bara ekki nærri jafn mikið og gestirnir. Staðan var 41-64 í hálfleik en Stólarnir mættu sprækir til leiks í síðari hálfleik.
Drungilas minnkaði muninn í 17 stig, 54-71, þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar og útlit fyrir endurkomu – ekki satt? Næstu 17 stig leiksins voru því miður gestanna, staðan 54-88. Á þessum tímapunkti virtist manni sem leikmenn Tindastóls hefðu helst viljað gufa upp. „Andlegt niðurbrot,“ sagði einhver að leik loknum.
Endurkoman hófst of seint
Þrjátíuogtveimur stigum munaði fyrir lokaleikhlutann og Grindvíkingar örugglega komnir inn í rútu í hausnum á sér. Hvað sem það var, Stólarnir komu skarpir og skírir til leiks í fjórða leikhluta og eftir rúmlega fimm mínútur höfðu þeir minnkað muninn niður í 13 stig, gert 21 stig í röð, og stuðningsmenn Stólanna glaðvaknaðir að nýju. Ennþá höfðu gestirnir þó nógu öflug vopn í sínu búri til að stöðva þessa flóðbylgju Tindastóls og lönduðu mikilvægum sigri.
Grindvíkingar notuðu sjö leikmenn í leiknum og allir skoruðu níu eða fleiri stig. Bestir voru Basile með 26 stig og Óli Óla 24 en hann tók einig 12 fráköst. Stólarnir spiluðu á níu leikmönnum og enginn þeirra skoraði meira en 19 stig og margir bættu tölfræðina sína verulega í fjórða leikhluta þegar leikurinn var í raun búinn. Lawson kláraði með 19 stig og níu fráköst, Drungilas var með 18 stig og níu fráköst. Næstir komu Woods og Pétur með 13 stig. Geks gat lítið sem ekkert beitt sér í leiknum sökum meiðsla og útlitið ekki gott.
Nú er spurning hvort lið Tindastóls nær að taka með sér pínu sjálfstraust og leikgleði í þriðja leik liðanna eftir þessar síðustu mínútur í Síkinu. Það er ekki víst að það dugi en það væri gott að sjá frammistöðu sem gerir leikmenn og stuðningsmenn stolta. Koma svo Stólar!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.