Gamla góða dagsformið skiptir nær öllu máli
Það er mögulega meistaraverk hjá almættinu að kæla Krókinn aðeins niður í dag því nægur er hitinn í brjóstum stuðningsmanna Tindastóls og sumar og sól mundi sennilega bræða úr mannskapnum. Fjórði leikurinn í einvígi Vals og Tindastóls fer nefinlega fram í Síkinu í kvöld og með sigri verður lið Stólanna Íslandsmeistari og það í fyrsta sinn. „Við eigum ekkert ennþá. Við þurfum að sækja þetta,“ segir Pavel Ermolinski, þjálfari Tindastóls í stuttu spjalli við Feyki.
Eins og allir vita þá gerðu Stólarnir sér lítið fyrir og unnu Valsmenn á Hlíðarenda nú á föstudaginn í hreint mögnuðum leik. Þá höfðu allir leikir einvígisins unnist á útivelli og Stólarnir reyndar nú unnið Val á Hlíðarenda í síðustu þremur leikjum. Sennilega dreymir þó alla stuðningsmenn Tindastóls um sigur í Síkinu í kvöld. Það lendir á þjálfarateyminu að undirbúa liðið fyrir – mögulega – stærtsta leikinn í sögu félagsins. Feykir spurði Pavel fyrst hvað hann var ánægðastur með í leik þrjú. „Ég var helst ánægður með að vinna leikinn. Núna snýst þetta bara um það, sama hvernig farið er að. Við vorum betri en Valsmenn en það er í raun aukaatriði.“
Hvað finnst þér helst lýsandi fyrir einvígi liðanna? „Tvö lið með ákveðna leikstíla. Sterkir karakterar báðum megin og gamla góða dagsformið skiptir nær öllu máli. Hvort liðið er með fleiri leikmenn sem spila vel.“
Hvaða tilfinningu gefur þetta ferðalag sem úrslitakeppnin er og er tími fyrir eitthvað annað en körfubolta þessa dagana? „Nei, það kemst ekkert annað að. Þetta er bæði ótrúlega skemmtilegt og lýjandi á sama tíma. En allir þeir sem eru að taka þátt í þessu eru meðvitaðir um hversu heppnir þeir eru að vera hluti af þessu og minningarnar sem þetta skapar.“
Hvað gerist næst – hvernig verður Tindastóll Íslandsmeistari? „Í þessum næsta leik verða spilaðar 40 mínútur af körfubolta og annað hvort liðið vinnur. Hver leikur hefur sína sögu. Það er mikilvægt að strákarnir og reyndar bara Skagafjörðurinn skilji að þetta er ekki okkar að tapa. Við eigum ekkert ennþá. Við þurfum að sækja þetta. Við þurfum að skapa þannig umhverfi fyrir strákana að þeim líði ekki eins og heimurinn sé á herðum þeirra. Það er enginn pressa á þeim, bara einstakur og einlægur stuðningur,“ segir Pavel að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.