Fyrsti leikurinn að Hlíðarenda á laugardag
Þá er ljóst að Valsmenn verða andstæðingar Tindastóls í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. Valsmenn gerðu sér lítið fyrir og snéru einvígi sínu við Þór Þorlákshöfn við eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum. Meiðsli settu sannarlega strik í reikninginn hjá liðunum en Valsmenn voru án Acox til að byrja með en veikindi og meiðsli nokkurra lykilmanna Þórs urðu þeim erfið í síðustu leikjunum. Liðin spiluðu oddaleik að Hlíðarenda í gærkvöldi og Valsmenn unnu leikinn, 102-95.
Valsmenn voru komnir með 21 stigs forystu snemma í fjórða leikhluta en Þórsarar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í þrjú stig, 96-93, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Þristur frá Kára Jóns kom Völsurum til bjargar og Íslandsmeistararnir sýndu úr hverju þeir eru gerðir.
Valsmenn urðu deildarmeistarar í vetur en lið Tindastóls endaði í fimmta sæti. Stólarnir hafa hins vegar verið gríðarlega einbeittir og flottir í úrslitakeppninni á meðan Valsmaskínan hefur hikstað. Lið Vals á að sjálfsögðu heimaleikjaréttinn og hefst einvígi liðanna því að Hlíðarenda laugardaginn 6. maí kl. 19:15. Einvígið býður ekki upp á nein helgarpartý í Síkinu á Króknum en annar leikur liðanna verður þriðjudagskvöldið 9. maí.
Má búast við hörkuseríu tveggja góðra liða
Feykir spurði Pétur Rúnar Birgisson, leikstjórnanda Tindastóls, hvernig einvígið við meistara Vals legðist í hann. „Það leggst bara mjög vel í mig, held að það sé alveg hægt að segja að það sé kominn fiðringur í menn og tilhlökkun fyrir laugardeginum.“
Hvað er erfiðast við Valsmenn? „Ætli það sé ekki bara hversu vel rútínerað liðið er, allir þekkja hvað ætlast er til af þeim varnarlega og sóknarlega og það er alltaf sterkt vopn að hafa.“
Hver er stefnan og hverju mega stuðningsmenn búast við? „Stefnan er að sjálfsögðu sett á sigur og ég held að stuðningsmenn megi bara búast við hörkuseríu á milli tveggja góðra liða,“ sagði Pétur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.