Frítt á völlinn í boði VÍS þegar Stólastúlkur fá Þór/KA í heimsókn
Síðasta umferðin í deildarkeppni Bestu deildar kvenna fer fram á sunnudaginn. Lið Tindastóls á þá heimaleik gegn sameinuðu liði Þórs/KA en leikurinn hefst kl. 14:00. Ljóst er að Stólastúlkur munu leika í fjögurra liða úrslitakeppni um að forðast fall í Lengjudeildina og því skiptir hvert stig máli. Það er því gott framtak hjá VÍS að bjóða stuðningsfólki á leikinn.
Tindastólsliðið er í áttunda sæti með 18 stig líkt og ÍBV en með slakari markatölu, Stigi neðar og í níunda sæti er lið Keflavíkur og flestum að óvörum er það Selfossliðið sem situr á botni deildarinnar með 11 stig. Þessi fjögur lið munu spila innbyrðis í úrslitakeppninni, þrjá leiki hvert, en þau tvö lið sem flest hafa stigin að lokinni deildarkeppni fá tvo heimaleiki í úrslitakeppninni. Stigin sem liðin tryggja sér í úrslitakeppninni bætast við þau stig sem þau hafa þegar nælt í. Það skiptir því hvert stig máli.
Stólastúlkum hefur ekki gengið vel með Akureyrarstúlkurnar hingað til en það má alveg gera breytingu á þeirri venju. Stuðningur áhorfenda er því mikilvægur og gæti hjálpað til við að styrkja stöðu Tindastóls.
VÍS lætur ekki duga að bjóða á leikinn því vátryggingafélagið mun einnig bjóða upp á Kristalm kaffi og kleinur í vallarhúsinu sem verður opnað kl. 12:30. Donni þjálfari mætir á svæðið korter í eitt og fer yfir málin.
Fjölmennum á völlinn og styðjum stelpurnar. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.