Frábært ÓB-mót í brakandi blíðu á Króknum
Þá er ÓB-móti Tindastóls sem fram fór á Sauðárkróki nú um helgina lokið. Að sögn mótsstjóra, Lee Ann Maginnis, voru um 550 keppendur á mótinu sem er skemmtileg tala á Króknum. Það voru því rétt tæplega 100 lið mætt til leiks og að þessu sinni lék veðrið heldur betur við keppendur og fylgisfólk, hlýtt og stillt og Skagafjörðurinn bauð upp á skrautsýningu í nótt sem verður eflaust mörgum minnisstæð.
Leikið var á tólf völlum á íþróttasvæðinu á Sauðárkróki og þar var fólk léttklætt og með góða skapið í öndvegi. Keppendur voru eðlilega miskátir með úrslitin en að móti loknu fengu sigurliðin sex verðlaunabikar til að fara með heim. Það eru stúlkur í 6. flokki sem keppa á ÓB-mótinu en að auki var skellt upp mini-móti fyrir yngri mótsgesti.
Vonandi hafa því allir haldið heim á leið kátir og hressir að lokinni skemmtilegri helgi. Þá má þó sjá á Facebook-síðu ÓB-mótsins að talsveður haugur af óskilamunum er í íþróttahúsinu og eru eigendur beðnir um að vitja þeirra við fyrsta tækifæri – munirnir verða nefnilega færði Rauða krossinum að tveimur vikum liðnum.
Hér að neðan má sjá myndir sem blaðamaður Feykis tók í gær en þá var veðrið með eindæmum gott.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.