Frábær toppbaráttusigur Tindastóls

Tindastólsmenn fagna fjórða marki sínu í dag. MYND: SIGURÐUR INGI
Tindastólsmenn fagna fjórða marki sínu í dag. MYND: SIGURÐUR INGI

Það var stórleikur í 4. deildinni á Króknum í dag þegar heimamenn í Tindastól tóku á móti liði Hamars í Hveragerði. Lið Tindastóls hefur halað inn mikilvæg stig að undanförnu og var komið í annað sæti deildarinnar með 22 stig en Hvergerðingar voru tveimur stigum á eftir í þriðja sætinu. Sigur Stólanna hefði komið þeim í góða stöðu. Þetta gekk eftir og Stólarnir unnu stórsigur. Lokatölur 4-0.

Sverrir Hrafn fyrirliði kom sínum mönnum yfir á 31. mínútu með skalla eftir hornspyrnu og tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Manuel Martinez forystuna og 2-0 stóð í hálfleik. Maxime Wester gerði út um leikinn á 57. mínútu en á 90. mínútu gerði Viktor Smári Sveinsson fjórða mark Stólanna og sitt fyrsta mark í 4. deildinni.

Feykir spurði Sverri Hrafn fyrirliða um leikinn og framhaldið. „Við erum bara mjög sáttir með leikinn í dag og hefðum hæglega getað skorað meira. Einn besti leikur okkar í sumar. Við erum bara brattir með framhaldið, förum ekkert fram úr okkur en markmiðið er skýrt.“

Hvernig líst þér á framhaldið? „Við erum að verða betri með hverjum leik og góð stemning i liðinu.“

Svo er það Fótbolti.net bikarinn eftir verslunarmannahelgi, þið eruð komnir í átta lið úrslitin. „Okkur líst bara vel á Kára í bikarnum. Við ætluðum okkur líka langt í þessari bikarkeppni og stefnum á sigur í þeim leik. Við gerum okkur grein fyrir að þeir eru á toppnum í 3. deildinni en við förum í alla leiki til að vinna,“ segir fyrirliðinn ákveðinn.

Sem fyrr segir er lið TIndastóls nú með 25 stig í öðru sæti en Ýmir er með jafn mörg stig en á leik til góðu líkt og flest önnur liðin í deildinni. Hamar er sem fyrr með 20 stig í þriðja sæti en Árborg og KH eru síðan bæði með 19 stig í 4.-5. sæti en þau mætast einmitt á þriðjudagskvöldið. Næstkomandi laugardag kemur síðan lið KH í heimsókn á Krókinn.

P.S. Þess má geta að Benjamín Jóhannes Vilbergsson, eða Benni Blönduósingu, spilaði í dag 200. leik sinn fyrir Tindastól. Til hamingju með það!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir