Fótbolta fegurðarsýning á Króknum
Lið Tindastóls og KH-inga af Hlíðarenda mættust í þriðja sinn í sumar á Króknum í dag. KH vann fyrri leik liðanna í 4. deild en Stólar sendu þá kumpána úr keppni í Fótbolta.net bikarnum nýlega í jöfnum leik. Stígandi hefur verið í leik Stólanna í sumar og í dag voru þeir mun sterkara liðið og spiluðu oft á tíðum hreint glimrandi fótbolta og uppskáru verðskuldaðan 4-1 sigur. Settust þar með á topp 4. deildar en hafa leikið leik meira en lið Ýmis.
Það voru fínar fótboltaaðstæður á Króknum í dag, hlýtt og stillt og einstaka sólargeislar. Augljóslega voru leikmenn í sumarskapi og eftir góða pressu á upphafsmínútum gerði Addi Ólafs fyrsta markið á 5. mínútu eftir snyrtilega sókn. Þá höfðu gestirnir varla farið með boltann yfir miðju en þremur mínútum síðar ákvað fyrirliðinn, Sverrir Hrafn, að testa andstæðinginn og athuga hvort þeir gætu nýtt sér slaka þversendingu. Það gerðu þeir reyndar skilmerkilega og jöfnuðu leikinn upp úr litlu sem engu. Stólarnir náðu þó fljótt tökum á leiknum að nýju og á 16. mínútu nýtti Addi sér mistök í vörn KH og renndi boltanum í markið. Þriðja mark Tindastóls kom eftir stutt horn og góða fyrirgjöf sem Svend Emil setti í netið með góðri afgreiðslu. Staðan 3-1 í hálfleik.
Gestirnir ætluðu sér stærri hluti í síðari hálfleik og leikurinn opnaðist enn meira. Lið KH fékk hins vegar úr litlu að moða gegn góðri vörn Tindastóls sem át allt sem í boði var og kom boltanum ýmist fljótt í leik með stuttu spili eða löngum sendingum upp kantana. Þetta skapaði mörg álitleg upphlaup þar sem leikmenn Stólanna sýndu netta takta. Þeir gerðu út um leikinn á 60. mínútu með einstaklega fallegu marki þar sem lið KH var sundurspilað og Josu Perurena komst á auðan sjó í teignum eftir smá töfraduft frá Benna eldri og skoraði með hnitmiðuð skoti.
Gestirnir buðu upp á nokkrar bíræfnar tæklingar fram til leiksloka en ógnuðu varla marki Tindastóls að ráði þar sem Nikola stjórnaði umferðinni af röggsemi.
Lokatölur þar með 4-1 og nú virðist sem baráttan um sæti í 3. deild muni standa á milli Tindastóls, Ýmis og Árborgar. Lið Tindastóls spilaði virkilega góðan fótbolta í dag, hreyfðu boltann vel og leikmenn voru duglegir að bjóða sig. Ákvarðanataka inni á vellinum undir pressu var góð og liðið leysti margar stöður með góðu spili. Í heildina var lið Tindastóls að sýna geggjaðan leik en ef það á að nefna einhverja þá má taka fram að Jónas Aron og Manuel Martinez voru skrímslum líkir á miðjunni og vinnusemin einstök fram á síðustu mínútu. Domi var óaðfinnanlegur í vörninni og átti margar snilldarsendingar fram völlinn og ekki má sleppa að nefna Benna eldri sem fór verulega í taugarnar á gestunum eftir nokkur skæri og hælspyrnur sem glöddu augað en hann var einnig að öðru leyti frábær.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.