Fjórir Íslandsmeistarar frá UMSS

Fjölmennt Meistaramót Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum fór fram í góðu veðri á Sauðárkróki um helgina. Um 200 keppendur tóku þátt í mótinu og þar af voru nokkrir skagfirskir keppendur sem áttu gott mót.  

Í hópi keppenda frá UMSS voru fjórir Íslandmeistarar; þau Gunnar Freyr Þórarinsson sem var í 1. sæti í sleggjukasti 16-17 ára, Ísak Óli Traustason sigraði í 110m grindarhlaupi 20-22 ára, Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir sigraði í 100m girndarhlaupi 18-19 ára og hástökki 18-19 ára en hún stökk 1,63m sem var mótsmet. Laufey Rún Harðardóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi 20-22 ára.

Úrslit keppenda UMSS voru eftirfarandi:

Gísli Laufeyjarson Höskuldsson  var í 10. sæti í langstökki pilta 15 ára og í 5. sæti í kúluvarpi 15 ára. Gunnar Freyr Þórarinsson sigraði í sleggjukasti 16-17 ára og varð Vésteinn Karl Vésteinsson í 3. sæti í þeim flokki. Gunnar hafnaði einnig í 4. sæti í kúluvarpi 16-17 ára og Rúnar Ingi Stefánsson í 5. sæti. Gunnar Freyr keppti einnig í kringlukasti 16-17 ára og varð í 7. sæti og Rúnar Ingi í því 9. Drengirnir kepptu jafnframt í spjótkasti 16-17 ára, þar varð Rúnar Ingi í 6. sæti og Gunnar í því sjöunda.

Kristinn Freyr Briem Pálsson var í 6. sæti í 200m hlaupi pilta 16-17 ára. Þá varð Sveinbjörn Óli Svavarsson í 2. sæti bæði í 100m og 200m hlaupi 18-19 ára. Hákon Ingi Stefánsson varð í 4. sæti í spjótkasti 18-19 ára og 6. sæti í kringlukasti 18-19 ára.

Sem fyrr segir varð Ísak Óli Traustason Íslandsmeistari í 110m grindarhlaupi 20-22 ára en þar að auki í 3. sæti í 100m og 400m hlaupi 20-22 ára, í 4. sæti í langstökki pilta og 5. sæti í kringlukasti. Jóhann Björn Sigurbjörnsson hreppti 2. sætið í 100m og 200m hlaupi 20-22 ára.

Hrafnhildur Gunnarsdóttir var í 2. sæti í kúluvarpi stúlkna 16-17 ára, 4. sæti í kringlukasti og 3. sæti í sleggjukasti. Vala Rún Stefánsdóttir var í 4. sæti í spjótkasti 16-17 ára. Ragna Vigdís Vésteinsdóttir er í 5. sæti 100m hlaupi 18-19 ára, 7. sæti í kúluvarpi 18-19 ára, 7. sæti í kringlukasti,  4. sæti í spjótkasti og í 3. sæti í sleggjukasti.

Þá varð Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir Íslandsmeistari í 100m grindarhlaupi 18-19 ára, hástökki 18-19 ára, 2. sæti í þrístökki 18-19 ára, 5. sæti bæði í kúluvarpi og í kringlukasti. Laufey Rún Harðardóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi 20-22 ára, 3. sæti í kringlukasti og 2. sæti í spjótkasti.

Úrslit mótsins má finna á vefsíðu Frjálsíþróttasambands Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir