Fjórar Stólastúlkur í liði ársins

Bryndís, Murr, María og Hugrún eru í liði ársins hjá Fótbolta.net. MYNDIR: DAVÍÐ MÁR
Bryndís, Murr, María og Hugrún eru í liði ársins hjá Fótbolta.net. MYNDIR: DAVÍÐ MÁR

Fótbolti.net hefur kynnt val sitt á liði ársins í Lengjudeild kvenna sem lauk á dögunum en það voru FH og Tindastóll sem flugu upp úr deildinni og leika því í Bestu deildinni á næstu leiktíð. Fjórar Stólastúlkur eru í liði ársins eða jafnmargar og FH-stúlkurnar. Varnarjaxlar Tindastóls, María Dögg Jóhannesdóttir og Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði, eru í liði ársins sem og Hugrún Pálsdóttir og Murielle Tiernan.

Það er ekki spurning að stelpurnar verðskulda sætin í liði ársins. Bryndís spilaði allar mínúturnar í sumar, gerði fjögur mörk og stöðugleikinn er hreint aðdáunarverður. María Dögg, sem spilar mest í bakverðinum, lék sama leik og Bryndís, spilaði allar mínúturnar, gerði þrjú mörk og var virkilega traust. Hugrún var gríðarlega mikilvæg á kantinum, náði öllum leikjum en ekki öllum mínútunum, enda ansi oft mætt til leiks með nokkrar dældir. Hún gerði sex mörk í sumar. Murr stríddi við meiðsli framan af móti og skoraði ekki mikið í fyrri umferðinni en hún endaði síðan næst markahæst í deildinni eftir að sóknarleikurinn fékk boost um mitt mót og hún náði að hrista af sér meiðslin. Murr náði að setjann 15 sinnum í sumar í 17 leikjum.

Við náðum okkar stóra markmiði

„Mér fannst sumarið mjög gott heilt yfir og náðum okkar stóra markmiði að fara beint aftur upp. Maður sá miklar framfarir hjá öllum í liðinu og spilamennska liðsins verður bara betri og betri,“ segir María Dögg þegar Feykir spurði hana út í sumarið með liði Tindastóls.

Hún segist hafa verið mjög ánægð með eigin frammistöðu í sumar og telur að þetta sé besta sumarið hennar í boltanum til þessa. „Ég held að heimaleikurinn á móti F/H/L hafi verið minn besti leikur í sumar.“

Náðirðu að spila allar mínúturnar í sumar? „Já, ég gerði það og er stolt af því, það er ekkert gefins að spila allar mínúturnar í þessu góða liði.“

Hvernig líst þér á sumar í Bestu deildinni? „Þetta er mjög krefjandi verkefni, deildin er alltaf að verða betri og liðið þarf að vera vel undirbúið en ég hef fulla trú á þessu liði!“ segir María Dögg í lokin.

Lið ársins hjá Fótbolta.net

Hér fyrir neðan má sjá það hvernig lið ársins í Lengjudeildinni er skipað hjá Fótbolta.net:

Tinna Brá Magnúsdóttir - Fylkir (markvörður)

María Dögg Jóhannesdóttir - Tindastóll
Maggý Lárentsínusdóttir - FH
Bryndís Rut Haraldsdóttir - Tindastóll
Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir - FH

Isabella Eva Aradóttir - HK
Sigríður Lára Garðarsdóttir - FH
Hugrún Pálsdóttir - Tindastóll

Linli Tu - Fjarðab/Höttur/Leiknir
Murielle Tiernan - Tindastóll
Telma Hjaltalín Þrastardóttir - FH

Bryndís Rut, fyrirliði Tindastóls, segir lið Tindastóls hafa átt gott tímabil. „Náðum fyrsta markmiðinu og komnar upp í Bestu deildina! Tindastóll á mikið af flottum leikmönnum og að mínu mati eðlilegt að sjá fjöldann sama og hjá liði FH en lítið skildi á milli þessara liða í sumar.“

Feykir óskar stelpunum til hamingju með valið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir