Fjögur víti dæmd í fjörugum jafnteflisleik í Hveragerði
Tindastólsmenn heimsóttu lið Hamars í Hveragerði í dag í 4. deildinni í fótboltanum. Stólarnir unnu fyrsta leikinn í deildinni á dögunum en lið Hamars hafði spilað tvo leiki og unnið báða. Liðin buðu upp á markaleik í dag en skiptu stigunum jafnt á milli sín eftir að dómarinn gaf báðum liðum tvær vítaspyrnur í leiknum – fjórar alls! – þar sem mögulega hefði ekki átt að dæma eina einustu. Lokatölur 3-3.
Heimamenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og komust yfir strax á 12. mínútu með marki Mána Snæs Benediktssonar. Torfi Már Markússon bætti um betur á 40. mínútu með marki úr víti en Konni lagaði stöðuna fyrir Stóla úr vítaspyrnu á 42. mínútu. Staðan 2-1 í hálfleik.
Tindastólsmenn komu beittari til leiks í síðari hálfleik en það var ekki fyrr en á 73. mínútu sem Manuel Ferriol Martinez jafnaði leikinn. Á 89. mínútu fengu Stólarnir víti sem Konni skoraði úr en á fimmtu mínútu uppbótartíma gaf dómarinn fjórða vítið og Ridrigo Depetris jafnaði leikinn.
Sverrir ánægður með spilamennsku Stólanna
Feykir spurði Sverri Hrafn, fyrirliða Tindastóls, hvernig leikurinn hefði verið og hvort úrslitin hefðu verið sanngjörn. „Þetta var svolítið leikur tveggja hálfleika þar sem þeir voru kraftmeiri í fyrri hálfleik og komust yfir snemma.“ Sverrir sagði að víti Hamars hafi verið mjög skrítið þar sem leikmaðuinn hefði runnið á boltanum. „En við komum miklu betur út í seinni hálfleikinn og vorum töluvert betri aðilinn og komumst sanngjarnt yfir í leiknum. Svo fá þeir víti í lokin sem var líka mjög skrítið þar sem tveir leikmenn skalla saman og fá víti út því. Leikur þar sem dómarinn dæmir fjögur víti og mögulega átti ekkert þeirra að vera víti. Við erum klárlega svekktir að vinna ekki leikinn en tökum stigið.
Hvernig finnst þér lið Tindastóls fara af stað í deildinni, ertu ánægður með leik liðsins? „Við förum bara vel af stað miðað við að hafa spilað á tveimur erfiðum útivöllum þá erum við þokkalega sáttir. Ég persónulega er mjög ánægður með okkar lið og hvernig við erum að spila. Við leggjum upp með að spila góðan og skemmtilegan fótbolta. Góðir erlendir leikmenn komnir inn sem og ungir strákar að fá hlutverk í liðinu sem er frábært. Heilt yfir bara sáttur með okkur og bjartsýnn fyrir komandi sumri.
Eftir viku halda strákarnir að Hlíðarenda og spila við Knattspyrnufélag Hlíðarenda en fyrsti heimaleikur liðsins verður væntanlega 1. júní þegar Kría kemur í heimsókn á nýlagfært gervigrasið á Króknum – vonandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.