FISK Seafood býður áhorfendum á úrslitaleik Tindastóls og FH
Nú er það baráttan um grasið! Síðasti fótboltaleikur sumarsins á Króknum fer fram nú á föstudagskvöldið þegar Fimleikafélag Hafnarfjarðar (FH) mætir og spilar hreinan úrslitaleik við lið Tindastóls um efsta sætið í Lengjudeildinni. Bæði liðin hafa þegar tryggt sér sæti í Bestu deildinni að ári og því engin pressa – aðeins metnaður og vilji til að krækja í titilinn. Það er því ekkert annað í stöðunni en að fjölmenna undir flóðljósin í stúkuna góðu og styðja Stólastúlkur til sigurs. FISK Seafood býður áhorfendum á völlinn þannig að þetta er bara rakið dæmi!
Lið FH hefur verið í efsta sæti Lengjudeildarinnar lengstum í sumar, er með 41 stig fyrir lokaumferðina og hefur enn ekki tapað leik í deildinni. Tindastólsliðið hefur sótt að toppliðinu að undanförnu og nú munar aðeins einu stigi á liðunum. Stólastúlkur hafa unnið síðustu fimm leiki í deildinni og ætli liðið sér að taka efsta sætið í deildinni þá dugar ekkert annað en sigur. „Okkar markmið eru alveg klár – við ætlum okkur bikarinn og núna viljum við að ALLIR mæti og styðji stelpurnar og búi til alvöru stemningu á föstudaginn,“ sagði Donni þjálfari eftir leikinn gegn Augnabliki sl. föstudag eftir að lið hans tryggði sætið í Bestu deild að ári.
Að sögn Sæþórs Más, framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar, þá er fólk hvatt til að mæta á völlinn með góðum fyrirvara og skapa góða stemningu. Það verður því byrjað að grilla hamborgara og tilheyrandi klukkutíma fyrir leik, sem hefst kl. 19:15, þannig að enginn ætti að þurfa hvetja stelpurnar á fastandi maga.
Gómsæt fjáröflun Stólastúlkna í samstarfi við Hard Wok Café
Þá er rétt að minna fólk á stuðningsbréf fótboltans í samvinnu við Hard Wok Café. Bréfið kostar 5.000 krónur sem allar renna til klúbbsins en gegn framvísun stuðningsbréfsins fæst 16 tommu pizza með þremur áleggstegundum, frönskum og 2 lítrar af gosi á Hard Wok Café.
Hægt er að verða sér út um svona geggjuð stuðningsbréf með því að senda skilaboð á
https://www.facebook.com/tindastollknattspyrna
Ef þetta er ekki gott framtak og góður díll ... ja, þá er ekkert til sem heitir góður díll.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.