Fimm lið frá Tindastól á Rey Cup í Reykjavík
Það var stuð og stemning í stúkunni á Laugardalsvelli í gær þegar Rey Cup fótboltamótið var formlega sett í fínasta veðri. Alls eru 148 lið skráð til leiks og þar af eru 136 lið frá 29 félögum á Íslandi en einnig má sjá lið frá Danmörku, Þýskalandi, Malawi, Bretlandi og Bandaríkjunum spila á mótinu. Keppt er í bæði U14 og U16 í drengja og stúlknaflokki og sendi Tindastóll frá sér fimm lið á mótið, þrjú í drengjaflokki (tvö í U14 og eitt í U16) og tvö í stúlknaflokki (bæði í U14). Til gamans má geta að innan raða Tindastóls á þessu móti má finna krakka frá öllu Norðurlandi vestra vegna samstarfs milli Tindastóls, Fram á Skagaströnd, Hvatar á Blönduósi og Kormáks á Hvammstanga.
Spilaður er 11 manna bolti í 2*25 mínútur og hófust leikar hjá okkar fólki fyrir hádegi í dag. Þegar þessi frétt er skrifuð hefur Tindastóll spilað tvo leiki, B lið drengja í U14 náði jafntefli á móti Austurlandi í markamiklum leik, lokatölur 4-4, og stúlkurnar í B-liðinu í U14 töpuðu á móti Fram 1-4.
Hér er hægt að fylgjast með stöðu leikja hjá öllum fimm liðunum en einnig er vefmyndavél á svæðinu sem sýnir frá öllum þeim leikjum sem spilaðir eru á AVIS-vellinum. Á morgun fá tvö lið Tindastóls leik á þeim velli, stelpurnar í A-liði U14 spila kl. 8:00 á móti USA svo spilar B-liðið, einnig í stúlknaflokki, U14 á móti Breiðablik kl. 12:00. Það er því um að gera að kíkja á þá leiki. Á morgun, eftir alla leiki dagsins, kemur svo í ljós hvenær og við hvaða lið Tindastólsliðin spila á laugardaginn og vonandi fær Tindastóll fleiri sjónvarpsleiki þá.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.