Feykisþrennan | Þrír fótboltaleikir á laugardegi
Það var fótboltalaugardagur í gær en allir þrír meistaraflokkarnir á Norðurlandi vestra voru í eldlínunni. Uppskeran var eins misjöfn og hún bat orðið; einn sigur, eitt jafnetli og tap. Í Bestu deild kvenna gerðu Stólastúlkur tvö mörk á AVIS vellinum í Reykjavík en það dugði skammt því heimastúlkur í Þrótti gerðu fjögur mörk og unnu sanngjarnan 4-2 sigur.
Þróttur R – Tindastóll 4-2
Heil umferð var spiluð í Bestu deildinni í gær og það var lið Tindastóls sem fór betur af stað og komst yfir eftir tíu mínútna leik. María Dögg fékk boltann hægra megin, sendi langa seningu inn fyrir vörn heimastúlkna og þar mætti Aldís María sem sendi boltann fyrir á Jordyn sem skoraði af öryggi. Jordyn var nálægt því að skora aftur en markvörður Þróttar blakaði boltanum í þverslána. Þetta reyndist mikilvæg varsla því lið Þróttar jafnaði á 36. mínútu. Freyja Þorvarðardóttir skallaði hornspyrnu í mitt mark Tindastóls þar sem gestirnir hefðu átt að verjast miklu betur. Fjórum mínútum síðar kom Kristrún Antonsdóttir Þrótti yfir með laglegu marki eftir basl í varnarleik Stólastúlkna.
Hún bætti við öðru marki eftir tveggja mínútna leik í síðari hálfleik, skallaði hornspyrnu í markið og staðan orðin 3-1. Stólastúlkur gáfust ekki upp og minnkuðu muninn á 74. mínútu. Hugrún vann baráttuna á vallarhelmingi Þróttar, Elísa Bríet fékk boltann og sendi frábæra laumu inn fyrir vörn Þróttar þar sem vinkona hennar, Birgitta Rún, mætti inn á teig og setti boltann yfir Mollee Swift í marki Þróttar og í markið. Fyrsta mark Birgittu í Bestu deildinni og þau eiga eftir að verða fleiri. Því miður þá svöruðu Þróttarstúlkur með marki strax í kjölfarið en þá kórónaði Kristrún þrennuna eftir að hafa skallað aukaspyrnu í markið.
Aldís María varð að hverfa af velli í kjölfar marksins en hún lenti í samstuði við Monicu markvörð. Lið Tindastóls var án Laufeyjar Hörpu en Gabby var mætt á sinn stað á ný á miðjunni. Donni tjáði Fótbolta.neti að úrslitin væru svekkelsi og þá ekki hvað síst að fá á sig þrjú mörk úr föstum leikatriðum sem er eitthvað sem lið Tindastóls hefur varist vel síðustu árin. Það verður því sennilega æft eitthvað næstu daga.
Kormákur/Hvöt – KFG 1-0
Garðbæingar heimsóttu Húnabyggð í gær í 2. deild karla. Liðin voru bæði tvö neðarlega í deildinni, Kormákur/Hvöt með fjögur stig en gestirnir þrjú að loknum fimm leikjum. Stigasöfnun var því mikilvæt.
Eina mark leiksins kom eftir 28 mínútur og það er skráð á Arnar Inga Valgeirsson, leikmann KFG, sem setti boltann í eigið mark. Leikurinn var spennandi og á Aðdáendasíðunni er talað um sigur liðsheildarinnar en þó er Urosi Djuric helst þakkað fyrir að stigin þrjú urðu Húnvetninga því kappinn varði eitt víti og snýtti nokkrum dauðafærum gestanna.
Þetta mun hafa verið þrettándi heimaleikur Kormáks/Hvatar í röð þar sem þeir lúta ekki í gras. Liðið er sem fyrr í áttunda sæti 2. deildar, nú með sjö stig en á heilbrigðari stað.
Ýmir – Tindastóll 0-0
Þá lék lið Tindastóls við Ými í Kórnum í Kópavogi í 4. deildinni en það var ansi mikilvægur leikur. Stólarnir voru án Dom Furness, spilandi þjálfara liðsins, en hann var í banni. Lið Ýmis hafði unnið alla fimm leiki sína fram að þessari viðureign en það fór svo að hvorguu liðinu tókst að skora og fengu bara sitt hvort gula spjaldið í leiknum – hlýtur að vera met í deildinni en kannski ekki.
Tindastóll er í sjötta sæti deildarinnar með átta stig að loknum fimm leikjum en liðið á enn einn leik inni gegn Skallagrími og gæti með sigri í þeim leik lyft sér ofar í törfluna. Næstkomandi laugardag á lið Tindastóls loks heimaleik – vonandi – en þá koma piltar af Reykjanesi í heimsókn en þeir eru sem stendur á botni 4. deildar með eitt stig.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.