Eva Rún blæs á slæma spá um gengi Stólastúlkna í körfunni

Eva Rún Dagsdóttir í hörkuslag á einasta tímabili. Mynd: Hjalti Árna.
Eva Rún Dagsdóttir í hörkuslag á einasta tímabili. Mynd: Hjalti Árna.

Á kynningarfundi Subway deildar kvenna, sem haldinn var í Laugardalshöll í gær, var m.a. kynntar spár formanna, þjálfara og fyrirliða liða í Subway- og 1. deild kvenna, og spá fjölmiðla fyrir Subway deild kvenna. Þar má sjá að Tindastól er ekki spáð góðu gengi í vetur.

Keppni í Subway deild kvenna hefst þriðjudaginn 20. september og 1. deildar kvenna 21. september. Stólastúlkur hefja sinn fyrsta leik föstudaginn 23. september gegn Breiðabliki b og kannski kaldhæðnislegt að tala um botnslag en þessum tveimur liðum er spáð versta gengi deildarinnar af formönnum, þjálfurum og fyrirliðum liðanna, Stólum 8. sæti og Blikum því 9. Ármanni er aftur á móti spáð efsta sætinu í 1. deildinni, KR öðru og Stjörnunni því þriðja.

Í Subway deildinni raða Haukar, Njarðvík og Valur sér í efstu sætin en ÍR mun falla, gangi spár eftir. Athygli vekur að spár formanna, þjálfara og fyrirliða og svo spá fjölmiðla eru fullkomlega samhljóma.

Þetta er fyrir Tindastól!

Feykir hafði samband við Evu Rún Dagsdóttur, lykilleikmann Tindastóls og spurði hvort hún væri sátt við spárnar. 
„Nei, ég er alls ekki sammála, en ég tek ekki mark á neinni spá. Við hugsum bara um okkur og einbeitum okkur að okkar markmiðum. Ég spái okkur í úrslitakeppnina í vor.“

Eva segir æfingar hafa gengið vel sem af er tímabilinu þar sem liðið hafi fengið styrktarprógramm og æfingar með Arnari Björnssyni í byrjun ágúst sem kom þeim af stað. „Nýi þjálfarinn, og leikmenn, komu saman í byrjun september og höfum við æft af fullum krafti síðan. Mér finnst æfingarnar lærdómsríkar, vel skipulagðar og keyrðar af miklu tempói. Ég finn fyrir bætingu á liðinu eftir hverja æfingu.“

Körfuknattleiksdeild Tindastóls fékk sænska þjálfarann Patrick Ryan í herbúðir sínar fyrir þetta tímabil en sá hefur þjálfað frá árinu 1991, m.a. bæði karla- og kvennalið í efstu deildum Svíþjóðar auk þess að hafa þjálfað mörg yngri landslið Svíþjóðar. Evu líst vel á Patrick og segir hann bæði framúrskarandi þjálfara og frábæra manneskju og kemur með öðruvísi aðferðir en fyrri þjálfarar og nýjar æfingar sem henta liðinu vel.

Nú er stutt í fyrsta leik og forvitnilegt að vita hvort Eva Rún hafi einhver skilaboð til lesenda Feykis. „Ég vil sjá bestu stuðningsmenn landsins fylla stúkuna á kvennaleikjum líka. Við þurfum á ykkar stuðningi að halda. Þetta er fyrir Tindastól!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir