„Erum ekki búnir að vinna neitt, það er mjög mikilvægt að hausinn sé þar,“ segir Svavar Atli um rimmu kvöldsins
Eins og alþjóð er kunnugt um verður einn mikilvægasti körfuboltaleikur sem fram hefur farið á Sauðárkróki spilaður í kvöld þegar Tindastóll tekur á móti ríkjandi meisturum í Val í úrslitakeppni Subway-deildar. Með sigri hampa heimamenn bikarnum en vinni Valur fer fram oddaleikur nk. fimmtudag syðra. Svavar Atli Birgisson, einn þjálfara Stóla segir mikilvægt að spennustigið fari ekki yfir hina fínu línu.
Það hefur ætíð þótt kostur fyrir sérhvert lið í úrslitakeppninni að vera með hin svokallaða heimaleikjarétt þar sem liðið sem ofar er á stigatöflunni eftir deildarkeppnina hefur leik á sínum heimavelli í hverri rimmu. Valur, sem deildarmeistari, hóf því leik á heimavelli gegn Tindastól sem hafnaði í 5. sæti en eins undarlegt og það hljómar hefur Stólum gengið betur á Hlíðarenda. Sem sagt bæði lið hafa unnið sína leiki á útivelli. Feykir hafði samband við Svavar Atla og spurði hvernig hans skýring væri á því að liðið vinni á útivelli en tapi heima.
„Ég myndi segja að með síðasta heimaleik sé sambland að Valsmenn voru með bakið við vegginn, með mikla reynslu og hitta á daginn. Þeir voru bara góðir, það má ekki taka það frá þeim. En það sem snýr að okkur þá náðum við ekki alveg að svara þessu og mér fannst við hafa verið yfirspenntir. Þegar leikmenn eru komnir þangað þá fer boltinn frekar að skrúfast upp úr hringnum og hugur og líkami fer ekki saman,“ segir þjálfarinn og samsinnir blaðamanni að stundum þurfi að tjúnna leikmenn niður: „Já, og þetta er alveg fín lína. Mér fannst bara að við hefðum farið yfir hana í þessum leik.“
Engu var líkara en Valsmenn hafi sogað skagfirsku stemninguna í sig í þessum síðasta heimaleik og er Svavar sammála því.
„Já, alveg klárlega. Með þessa reynslubolta í liðinu sem þrífast á svona,“ útskýrir hann og tekur Kára Jónsson sem dæmi. „Þeir nýttu sér orkuna í húsinu og stemninguna sér í hag og náðu að kveikja í sér. Þannig að við fórum aðeins yfir þessa línu sem ég nefndi áðan en þeir voru á réttum stað.“
Svavar segir að á takist tvö hörkulið og árangur geti snúist um að aukaleikarar skili einhverju inn á borðið. „Eins og í síðasta leik með Ragnar sem dæmi. Þetta skilur á milli því að liðin eru búin að kortleggja hvort annað og eru að gera upp ákveðna hluti og þá er rosalega sterkt sem dæmi að gefa upp Ragga, að hann setji þessi skot og fái þessi færi, og að fá hina þá til að hugsa eitthvað annað. Meðan þú kemst upp með það að loka á ákveðnar leiðir og gefa upp eitthvað sem er ekki að virka fyrir okkur þá er það mjög erfitt fyrir okkur. Í síðasta leik náðum við að slökkva á Kára Jónssyni þá voru leiðirnar aðeins erfiðari fyrir þá, þeir skoruðu aðeins 30 stig á okkur í seinni hálfleik sem er magnað. Þá fórum við í okkar leik.
Heldurðu að það hafi einhver áhrif að bikarin verður staðsettur í húsinu meðan leikurinn fer fram?
„Já, já, ég held að þetta verði meira áþreifanlegt að hafa eitthvað fyrir framan sig eins og í fyrra, það breytti aðeins andrúmsloftinu. En við munum nálgast þetta eins og við höfum verið að gera. Hver leikur er bara sér verkefni, fortíðin er ekkert að hjálpa okkur þarna. Við þurfum að nálgast þetta eins og við þurfum að ná í þetta en ekki verja, af því við erum ekki búnir að vinna neitt. Það er mjög mikilvægt að hausinn sé þar,“ segir Svavar í lokin sannfærður um sigur Stólanna í kvöld.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.