Erum allar ready í alvöru seríu - segir Brynja Líf
Það hefur verið gaman að fylgjast með liði Stólastúlkna í körfunni í vetur og nú spilar liðið til úrslita um sæti í Subway-deildinni að ári. Það er mikil breyting á liðinu frá því árið áður, mörg púsl bættust í hópinn síðasta haust sem Helgi þjálfari hefur náð að sameina í heilsteypta mynd. Eitt lykilpúslið er Brynja Líf Júlíusdóttir, 16 ára stúlka frá Egilsstöðum, sem kom á Krókinn til að spila með liði Tindastóls og stunda nám á náttúruvísindabraut og í körfuboltaakademíu FNV. Hún er ein efnilegasta körfuboltastúlka landsins í sínum árgangi og í síðasta leiknum gegn Snæfelli á dögunum þá gerði hún átta af tíu stigum Tindastóls í framlengingu.
Feykir sendi henni nokkrar spurningar og það er eðlilegt að byrja á því að spyrja hverja manna hún er. „Foreldrar mínir eru Kristín Rut Eyjólfsdóttir og Júlíus Brynjarsson, svo á ég tvö yngri systkini, Eyjólf Mar og Viktoríu Leu. Körfuboltagenin fæ ég frá mömmu, fyrir þá sem hafa verið að spyrja þá er ég nokkuð viss um að skapið komi líka frá hennu.·
Hvers vegna komstu á Krókinn og tókst slaginn með liði Tindastóls? „Það var ekki erfið ákvörðun eftir að Helgi hringdi í mig og sagði mér nákvæmlega hvaða markmið félagið væri með fyrir komandi tímabil og næstu ár. Mér leist mjög vel á það, mikill metnaður hjá félaginu og virkilega vel haldið utan um allt. Það er alveg ótrúlegt hvað fólkið hérna gerir fyrir þetta félag og liðið – mikið hrós til allra sem koma að því!·
Hvernig var stemningin eftir sigur í fjórða leik gegn Snæfelli, varstu sátt með eigin frammistöðu? „Stemningin var mjög góð og ég var mjög ánægð með mig og liðið. Við vorum allar tilbúnar og gáfum allt sem við áttum til að vinna. Þetta sýndi nákvæmlega hvernig lið við erum, gefumst aldrei upp og ég gæti ekki verið stoltari af okkur.
Þú gerðir flest stigin þín í framlengingunni, varstu bara að spara þig? „Hver veit nema það að spara mig fyrir framlenginguna hafi verið planið,“ segir Brynja Líf hlæjandi.
Hefurðu verið ánægð með veturinn hjá liði Tindastóls? „Já, ég er mjög ánægð með okkur, við höfum lent í alls konar mótlæti eins og gerist hjá öllum en sama hvað þá höldum við áfram og stöndum við bakið a hvor annari. Það er augljóst að hver og ein er tilbúin að gera allt sem þarf fyrir liðið og mér finnst það vera það sem stendur mest uppúr. Svo finnst mér Helgi búinn að vera risastór partur af framförum og sjálfstraustinu okkar sem einstaklingar og sem lið. Hann hefur fulla trú á okkur öllum, alltaf.“
Hvenær byrjaðir þú í körfubolta? „Ég hef verið í körfubolta síðan ég byrjaði að labba. Ég byrjaði hjá mömmu heima í skotum og alls konar drillum, Mamma var svo að þjalfa eldri stelpur, ég fékk alltaf að koma með og horfa þangað til ég fór svo að æfa með þeim. Síðan á stuttum tima voru einhvernveginn allar stelpur hættar að æfa þannig að ég færðist yfir til strákanna og æfði og spilaði með þeim alla yngri flokka þangað til ég kom í Tindastól.“
Er lífið í FNV gott? „Já, frábær skóli, heimavist og gott félagslíf.“
Þú ert í Körfuboltaakademíu FNV, er þetta skemmtilegt nám og hvað finnst þér þú hafa lært þar? „Akademian er ótrúlega skemmtileg. Við erum einu sinni í viku á morgunæfingu og svo einum bóklegum tima. Í bóklegu tímunum tölum við um alls konar mikilvægt tengt körfubolta og iþrottum yfir höfuð, t.d. næringu, svefn, og styrk. Svo förum við út í annað sem tengist andlega hlutanum og allt það mikilvæga sem þarf til að verða að góðum íþróttamanni.“
Er góð stemning í hópnum? „Við erum 13 nemendur núna í Akademíunni og það er mjög skemmtileg og góð stemning hjá öllum. Við erum að klára síðustu tímana og erum að fara t.d. yfir hvað var gott og hvað mætti bæta. Það er mikill metnaður lagður í þetta og ég mæli sjúklega með því fyrir allar metnaðarfullar íþróttastelpur og -straka að koma og vera með!“
Hvernig leggjast leikirnir gegn Aþenu í þig og lið Tindastóls, eigum við möguleika á að komast upp í Subway-deildina? „Leikirnir leggjast mjög vel í mig og stelpurnar. Við erum bunar að vinna fyrir þessu og erum allar ready i alvöru seríu. Ef við ættum ekki möguleika á að komast í Subway þá værum við ekki hér, við ætlum í subway….fyrsti leikur á föstudaginn, sjáumst!“ segir Brynja Líf ákveðin.
Fyrsti leikur í úrslitarimmunni verður annað kvöld í Austurbergi í Breiðholti en síðan mætast liðin í Síkinu á mánudaginn. Vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sæti í efstu deild. Myndirnar hér að neðan tók Davíð Már og eru allar frá fjórða leik Tindastóls og Snæfells.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.