Erfiður lokakafli á Þórsvellinum í gærkvöldi

Melissa gerði fyrsta mark leiksins snemma í síðari hálfleik en dómari leiksins dæmdi það af. MYND: ÓAB
Melissa gerði fyrsta mark leiksins snemma í síðari hálfleik en dómari leiksins dæmdi það af. MYND: ÓAB

Það var nágrannaslagur á Þórsvellinum í gærkvöldi þegar Stólastúlkur heimsóttu lið Þórs/KA í Bestu deild kvenna. Lið Akureyringa hefur löngum verið liði Tindastóls erfitt og lítið gengið að krækja í stig gegn þeim. Á því varð engin breyting í gærkvöldi en eftir markaþurrð fyrsta klukkutímann þá opnuðust flóðgáttir í vörn gestanna eftir að heimastúlkur náðu forystunni. Lokatölur 5-0.

Murr var ekki með Stólastúlkum í gær, var reyndar á bekknum, er að jafna sig af meiðslum og átti að nýtast sem leynivopn í lokin ef staðan biði upp á það – sem hún gerði ekki. Leikplan Donna þjálfara gekk ágætlega upp framan af leik og varðist lið Tindastóls vel framan af leik. Hrafnhildur, sem er nýstigin upp úr meiðslum, fór af velli á 37. mínútu og inn kom Krista Sól. Rétt fyrir hlé urðu heimastúlkur fyrir áfalli þegar þeirra skæðasti leikmaður, Sandra María Jessen, handarbrotnaði eftir að boltinn skaust í hendina á henni. Þá var hún reyndar nýbúin að klúðra dauðafæri. Staðan 0-0 í hálfleik.

Gestirnir úr Skagafirðinum komu beittir til leiks í síðari hálfleik og voru sannarlega óheppnir að ná ekki forystunni. Krista átti skot naumlega framhjá, María Dögg setti boltann í þverslá og Melissa skoraði það sem flestir töldu löglegt mark – nema dómarinn. Að mati Donna var Melissa á undan nöfnu sinni í marki Þórs/KA í boltann en markvörðurinn lenti á Stóla-Melissu eftir að hún skallar boltann í markið. Þetta reyndist vendipunktur í leiknum því í stað þess að ná dýrmætri forystu lentu Stólastúlkur undir á 62. mínútu þegar Dominique Randle skoraði eftir hornspyrnu. Karen Sigurgeirsdóttir bætti við öðru marki tveimur mínútum síðar og hörmungar sex mínútna kafla lauk með þriðja marki heimastúlkna þegar Una Móeiður Hlynsdóttir gerði þriðja markið á 68. mínútu.

Hulda Ósk Jónsdóttir gerði laglegt mark á 79. mínútu og hún innsiglaði stórsigur heimastúlkna með því að skora úr víti í uppbótartíma eftir að Hannah hafði nánast gripið boltann í vítateig Tindastóls.

Það var ljóst að þrír síðustu leikirnir í fyrri umferð Bestu deildarinnar yrðu erfiðir en mótherjarnir voru Þróttur, Valur og Þór/KA. Einhverja dreymdi þó um að næla í tvö-þrjú stig en niðurstaðan varð þrjú töp og markatalan 0-13. Lið Tindastóls er í áttunda sæti að loknum níu leikjum, með átta stig og einu stigi fyrir ofan ÍBV og Selfoss sem eru í fallsætunum. Það var jákvætt að sjá í gær að Donni var tilbúinn að setja tvær 15 ára stúlkur inn á og gefa þeim færi á að spreyta sig í Bestu deildinni. Þetta voru Skagstrendingarnir bráðefnilegu; Birgitta Rún og Elísa Bríet.

- - - - -

Skapti Hallgríms á Akureyri.net tók myndir á leiknum – og er ekki alveg sammála Donna um markið sem dæmt var af >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir