Erfiðir þriðju leikhlutar hjá 10.fl.karla um helgina í Síkinu
Um helgina mættust Tindastóll og ÍR í tveim leikjum í 10.fl.karla í Síkinu og var fyrri leikurinn spilaður á laugardeginum og seinni á sunnudeginum. Fyrir leikinn voru ÍR-ingar í fyrsta sæti og okkar strákar í öðru sæti svo búast mátti við hörkuleikjum um helgina.
Okkar strákar komu vel stemmdir til leiks á laugardaginn og voru lengi vel yfir en þegar leið á komust ÍR-ingar yfir og staðan 13-16 eftir fyrsta leikhluta. ÍR byrjaði betur í öðrum leikhluta en okkar strákar komu til baka og voru mjög nálægt því að jafna en ÍR-ingar tóku aftur við sér og leiddu 29-40 í hálfleik. Strákarnir okkar komu ekki nógu tilbúnir inn í seinni hálfleik og gekk hálf brösuglega að hitta í körfuna og refsuðu gestirnir grimmilega og náðu góðu forskoti sem þeir náðum ekki að jafna og voru lokatölur 64-83.
Í seinni leik liðanna á sunnudeginum var greinilegt að okkar strákar ætluðu að selja sig dýrt og var mikil barátta í báðum liðum í fyrri hálfleik sem endaði 25-26 fyrir ÍR. En eins og í fyrri leiknum voru strákar ekki nægilega tilbúnir í þriðja leikhluta og skoruðu ÍR-ingar fyrstu 12 stigin. Þá tóku loksins okkar strákar við sér og söxuðu jafnt og þétt en ÍR-ingar náðu að halda haus og sigruðu að lokum 60-69. Niðurstaða helgarinnar því tvö töp og ÍR trónir á toppi 2. deildar með 18 stig og Tindastóll situr nú í því þriðja með 12 stig.
/Hjalti Vignir Sævaldsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.