Mikilvægur sigur Stólanna á liði KÁ
Tindastólsmenn hrisstu af sér svekkelsistap helgarinnar þegar þeir tóku á móti Hafnfirðingum í liði KÁ á Sauðárkróksvelli í gær. Gestirnir voru sæti ofar en Stólarnir fyrir leik og voru það raunar eftir leik líka en bilið nú tvö stig í stað fimm.Stólarnir voru tveimur mörkum yfir í hálfleik og höfðu í raun tryggt sér stigin snemma í síðari hálfleik. Lokatölur 3-1 og mikilvæg stig á töfluna fyrir lið Tindastóls.
Dom þjálfari kom sínum mönnum á bragðið á 18. mínútu með góðu slútti eftir fínt spil. Svíinn Max bætti um betur á 40. mínútu með góðu skoti í fjærhornið eftir að Stólarnir náðu að opna vörn gestanna með laglegu spili. David Jimenez gerði síðan þriðja mark heimamanna á 57. mínútu með frábæru skoti utan teigs sem small í stönginni og í markið. Smá hiti hljóp í leikmenn undir lokin þegar Jón Gísli fékk að skoða rauða spjaldið hjá dómaranum eftir að hafa hlaupið aðeins á sig. Minnkuðu KÁ-menn muninn á þriðju mínútu í uppbótartíma með marki frá Þóri Eiðssyni en fleiri urðu mörkin ekki.
Nú væri svo bara fínt ef Stólarnir skrúfuðu fyrir þennan markaleka í uppbótartíma – hann er búinn að kosta nokkur stig í sumar þó ekki hafi hann komið að sök í þetta sinn. Frammistaða Stólanna var hins vegar flott á heildina litið. „Vorum þéttir og góðir varnarlega og hættulegir á síðasta þriðjungi,“ sagði Jónas Aron í spjalli við Feyki.
Nú þegar Stólarnir hafa spilað helming leikja sinna í deildinni er liðið með 14 stig, hafa unnið fjóra leik, gert tvö jafntefli og tapað þremur leikjum. Þeir eru í fimmta sæti deildarinnar og þurfa að halda vel á spöðunum ætli þeir að blanda sér í baráttuna um sæti í 3. deildinni. Til þess þarf liðið meiri stöðugleika í síðari umferðinni og bullandi sjálfstraust. Enn er allt hægt. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.