Stólar á Tenerife

Þungskýjað á Tenerife en létt yfir strákunum.
Þungskýjað á Tenerife en létt yfir strákunum.

Aðfaranótt þriðjudagsins 13. september lögðu þrettán leikmenn og tveir þjálfarar (Aron M. Björnsson og José María Costa) körfuknattleiksdeildar Tindastóls af stað til að taka þátt í 30. Torneo de Baloncesto, gríðarsterku og sögufrægu körfuboltamóti í Höfuðborg Tenerife. Til að ferja liðið með sem bestu þægindum í flugið til Keflavíkur valdist laglegur hvítur Benz kálfur af ´91 árgerð keyrður rétt sunnan við 2 milljón kílómetra. Til að stýra herlegheitunum og tryggja verðmætan farminn var leikreyndasti leikmaður liðsins með rétt um 200 leiki, Svavar Atli Birgisson fenginn til að keyra stystu leið upp að flugvél. 


Þrír góðir: Chris Caird, Jónas Sigurjónsson og Svavar Atli Birgisson.

 Liðið flaug með nýjustu flugvél Wow air og það var enginn annar en bóndasonurinn frá Ríp, Kapteinn Birgir Örn Birgisson sem stýrði þotunni á methraða til Tenerife og færum við honum bestu þakkir fyrir. Eftir dúnmjúka lendingu á tartaninu í 28 stiga hita og sól, veðri sem er okkur Skagfirðingum ekki óvanalegt, var fyrsti dagur tekinn í rólegheitum á hótel Noelia playa. Þar hitti liðið fyrir nýjasta leikmanninn sem heitir „Pape“. Hann er engu styttri en vinur hans „Pakkó“ sem einnig kemur frá Senegal en hafði náð nokkrum æfingum með liðinu fyrir ferðina. 

 

Miðvikudagur 14. september:

Dagurinn tekinn snemma, allir risu úr rekkju upp úr klukkan 8 um morguninn og fóru í morgunmat á hótelinu. Allir voru í sínu fínasta pússi enda var hópnum boðið til fundar við borgarstjóra Santa Cruz ásamt formanni körfuknattleikssambands Tenerife. Þetta var mikill og góður fundur og mörg hundruð myndir teknar af liðinu af atvinnuljósmyndurum og blaðamönnum (þá þökkuðu Hannes og Viðar fyrir að hafa sett á sig sólarvörnina fyrr um morguninn því flassið var ansi sterkt, þó engin væri sólin úti). Á fundinum var Tindastól færðar þakkir fyrir að koma og taka þátt í mótinu og greinilega var mikil eftirvænting hjá þeim að sjá íslenskt lið spila á þessu móti sem nú er haldið í 30. sinn samhliða mikilli bæjarhátíð í Santa Cruz. Fyrirliðinn Helgi Rafn Viggósson kom öllum viðstöddum á óvart þegar hann ávarpaði samkomuna á fljúgandi spænsku. Liðið var leyst út með gjöfum en þaðan fór það svo á æfingu í íþróttahúsinu þar sem mótið er haldið. Liðið tók létta æfingu og var að kynnast aðstæðum og greinilegt er að góður andi er í hópnum og Tindastrákarnir eru klárir í slaginn. Í kvöld er fyrsti leikur ferðarinnar og er það æfingaleikur við Santa Cruz regional liga þar sem þjálfarinn mun leggja áherslu á að allir leikmenn muni fá að njóta sín. 

Liðið vill koma á framfæri þökkum til allra stuðningsmanna sinna, styrktaraðila og stjórnar því það þarf mikla vinnu, ósérhlífni og samheldni til að gera svona ævintýri mögulegt.

Áfram Tindastóll!!

Fyrir hönd leikmanna

Helgi Freyr Margeirsson

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir