Gamlárshlaupið áfram árlegt, Árni afhenti keflið
Allmörg ár eru síðan sýnilegur og jafnframt fjölmennur hópur fólks setti svip sinn á Sauðárkrók. En þá fór um bæinn, holt, heiðar og nær sveitir hópur fólks, í hvers lags veðri, hlaupandi eða gangandi og hélt oftar en ekki til við Sundlaug Sauðárkróks. Þetta var Skokkhópurinn, sem varð til með samvinnu íþróttakennara í bænum og var virkni hópsins mikil, til lengri tíma.
Gamlárshlaupið sem haldið hefur verið undanfarna áratugi er einmitt afurð þessa félagaskapar, því skokkhópurinn hélt fyrsta hlaupið, þá einungis aðilar að hópnum sjálfum sem hlupu saman á gamlársdegi árið 1996. Þátttakendur þá voru 35 talsins og þótti vel heppnað að taka holla hreyfingu á þessum síðasta degi ársins til að losna undan amstri dagsins og hlaupa af sér saltað kjöt og syndir ársins. Því var tekin sú ákvörðun að gera þetta að almenningsviðburði og hvetja þannig fleiri til þátttöku.
Fyrsta hlaupið, í nánast sömu mynd og þekkist í dag, fór því fram árið 1997 og voru bæjarbúar hvattir til að koma og taka þátt, á sínum forsendum. Í þessu sama hlaupi voru einnig fyrstu úrdráttarverðlaunin og var Sigríður Svavarsdóttir, oftast kölluð Sirrý, sú sem vann þá gjafabréf í sportvörudeildina í Skagfirðingabúð. Þetta varð uppskriftin að því sem hlaupið er í dag, sem felst í einfaldri umgjörð, skráningu á staðnum, engu þátttökugjaldi og flottum úrdráttarverðlaunum ásamt alhliða hvatningu til allra aldurshópa að koma saman á síðasta degi ársins, stunda létta hreyfingu og útveru og eiga heilsusamlega samveru hvert með öðru.
Þátttakendur hafa frjálst val um hvað þeir fara langa vegalengd, hversu hratt þeir vilja fara yfir og þannig hefur tekist að höfða til sem flestra. Aldursbil þátttakenda er breytt og mæta heilu fjölskyldurnar samsettar úr nokkrum ættliðum eða leggjum saman og eiga þar góða stund.
Í ár var haldið 24. hlaupið eftir þessu sniði og hafa þátttakendur aldrei verið fleiri eða 294 talsins, sömuleiðis voru úrdráttarverðlaunin 77, þannig að rúmlega fjórðungur þátttakenda fór heim með verðlaun. Þetta var jafnframt síðasta hlaupið sem Árni Stefánsson skipuleggur, en hann hefur haldið skipulagningu uppi frá upphafi hlaupsins, með dyggri aðstoð annarra meðlima skokkhópsins. Í lok hlaupsins var Árna veittur þakklætisvottur frá sveitarfélaginu ásamt því að hann gaf skipulagskeflið til nýrra handa.
Mikilvægt er fyrir samfélög að halda í góðar hefðir og því er frábært að vita til þess að kominn sé nýr hópur í bæinn sem tilbúinn er að halda þessu áfram. En hlaupahópurinn Rammvilltar ætla að taka við skipulagningu og halda áramótahefðinni á lofti, sem hefur verið samfelld að covid árum undanskyldum.
Almenn ánægja hefur verið með hlaupið í gegnum árin og hefur mætingin verið til fyrirmyndar í gegnum árin og vonandi heldur hún áfram að vaxa um ókomin ár.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.