Engin stig til Stóla á Valsvelli

Ekki reyndist Valsvöllur leikmönnum Tindastóls happadrjúgur í gærkvöldi þegar þeir sóttu lið Knattspyrnufélags Hlíðarenda heim í 4. deildinni. Stólarnir skoruðu fyrsta markið snemma leiks en næstu þrjú mörk voru heimamanna áður en gestirnir löguðu stöðuna. Jöfnunarmarkið leit ekki dagsins ljós og svekkjandi 3-2 tap því staðreynd.

Það var David Bjelobrk sem kom Stólunum yfir strax á fimmtu mínútu en Hlíðarendapiltar fengu víti á 40. mínútu og úr því skoraði Ingólfur Sigurðsson. Staðan 1-1 í hálfleik en eftir tveggja mínútna leik í síðari hálfleik kom Magnús Axelsson heimamönnum í forystu. Bele Alomerovic kom liði KH í 3-1 á 66. mínútu en David Bercedo lagaði stöðu Stóla mínútu síðar.

Þar við sat og lið Tindastóls nú í sjöunda sæti í tíu liða 4. deild. Liðið á leik til góða gegn Skallagrími sem var frestað vegna vallaraðstæðna á Króknum en verður leikinn í næstu viku ef völlurinn verður klár í slaginn.

Nú á laugardag taka Stólarnir á móti Kríu, undir sömu formerkjum, og hefst leikurinn kl. 16:00. Kría er af Seltjarnarnesinu og hefur farið ágætlega af stað í 4. deildinni í sumar, er með sjö stig að loknum þremur leikjum. Borgfirðingar koma síðan í heimsókn þriðjudaginn 4. júní. Stólarnir þurfa að gera vel í þessum leikjum ef þeir ætla sér í toppbaráttuna í sumar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir