„Ekki hætta að reyna að toppa sjálfa ykkur“
Feykir sagði frá því í sumarbyrjun að margfaldi meistarinn okkar stóri, Sigurður Gunnar Þorsteinsson, hafi ákveðið að rifta samningi sínum við Íslandsmeistara Tindastóls í körfunni og leita á önnur mið. Ýmsir voru undrandi en sennilega má rekja ákvörðun kappans til þess að minna hafi verið að gera í vinnunni en hann bjóst við – mínútunum á parketinu hefur jú farið fækkandi. Nú í vikunni varð síðan ljóst að Sigurður Gunnar hefur ákveðið að snúa heim til Ísafjarðar og spila með liði Vestra í 2. deildinni.
Hann er nú orðinn 35 ára og vill augljóslega fá að njóta lífsins spilandi körfubolta í stað þess að dvelja á bekknum. Feykir tók aðeins púlsinn á Sigurði Gunnari í tilefni af tímamótunum.
Hvernig var tíminn með liði Tindastóls og hvernig er að spila fyrir framan þessa stuðningsmenn? „Síðustu tímabil hafa verið skrautleg en skemmtileg. Við fjölskyldan höfum kynnst fullt af frábæru fólki í kringum körfuna og utan hennar. Bæði tímabilin voru keimlík, byrjuðu með miklum væntingum leikmanna og samfélagsins. Þegar sólin tók að lækka þá voru atburðir sem urðu þess valdandi að andrúmsloftið varð þyngra í klefanum, á pöllunum og í samfélaginu öllu. En eftir áramót létti til með breytingum, sérfræðingarnir á svölunum urðu jákvæðari og liðinu gekk betur og betur með hverjum leiknum. Síðan endaði þetta allt í skagfirskri sveiflu um vorið.“
Finna leikmenn vel fyrir væntingum stuðningsmanna? „Já, við gerum það. Persónulega finnst mér skemmtilegra að spila þegar það eru gerðar miklar væntingar til mín. Það var auðvitað leiðinlegt þegar við náðum ekki að standast væntingar.“
Í vor voru tíu ár frá því þú hampaðir Íslandsmeistaratitli síðast. Varstu stoltur að krækja í fjórða titilinn eftir þetta langa pásu? „Já, ég er mjög stoltur af því, það er búið að fara mikil vinna í alla þessa titla, líkamleg og tilfinngaleg. Þetta er margfalt erfiðara en fólk gerir sér grein fyrir.“
Einhver skilaboð til Tindastólsfólks í lokin? „Já, verið góð við strákana í vetur. Þetta er í fyrsta sinn sem strákarnir hafa ekki Helga Rafn sem fyrirliða og hann sá vel um liðið sitt. Þeir gætu orðið svolítið áttavilltir til að byrja með, enda man varla nokkur maður hver var fyriliði á undan Helga. Ef þið sjáið strákana vera að ráfa um göturnar og vitið að þeir eiga vera á æfingu, þá hjálpið þið þeim kannski að rata upp í íþróttarhús. Ekki hætta að reyna toppa sjálfa ykkur, ykkur tekst það alveg örugglega! Takk kærlega fyrir mig og fjölskylduna mína,“ segir Siggi að lokum.
Feykir þakkar Sigga og fjölskyldu fyrir tíma sem aldrei mun lýða úr minninu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.