Einum færri náðu Stólarnir að sigra Dalvík/Reyni
Tindastóll tók á móti Dalvík/Reyni í 2. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Liðin skipuðu tvö neðstu sætin í deildinni fyrir leikinn en ljóst var að með sigri næðu Stólarnir að þoka sér ofar í deildinni. Þrátt fyrir glampandi sól gerði köld norðvestanátt leikmönnum lífið leitt og hafði talsverð áhrif á gæði fótboltans.
Leikurinn tafðist um hálftíma eftir að gestirnir urðu fyrir óhappi á leið í leikinn. Þeir léku með vindinn í bakið í fyrri hálfleik en það voru þó heimamenn sem voru mun sterkari framan af og aðeins Sveini Leó Bogasyni í marki gestanna um að kenna að Stólarnir voru ekki komnir með ágætt forskot fyrir hlé. Undir lok hálfleiksins náðu gestirnir loksins að ógna marki Tindastóls eftir horn- og aukaspyrnur en höfðu ekki erindi sem erfiði. Bjarni Smári Gíslason krækti sér í gult spjald á 41. mínútu og mótmælti þeim dómi kröftuglega og mátti teljast heppinn að fá ekki annað spjald í kjölfarið.
Hann fékk reyndar að skoða sama gula spjaldið hjá dómaranum þegar um tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og sá því rautt í framhaldinu. Stólarnir höfðu hafið síðari hálfleikinn vel og pressuðu stíft að marki D/R. Sérstaklega var Arnar Skúli Atlason duglegur að þeysa upp hægri kantinn og ógna marki gestanna. En einum fleiri náðu gestirnir betri tökum á leiknum þó Stólarnir væru alltaf hættulegir með vindinn í bakið. Sérstaklega voru hornspyrnur Tindastóls stórhættulegar og stuðningsmenn Stólanna hristu hausinn forviða þegar ítrekað vantaði stóra tá til að ýta boltanum í markið. Eitthvað hlaut þó á endanum að falla með Stólunum og það var Fannar Örn Kolbeinsson sem keyrði boltann yfir línuna eftir hornspyrnu á 74. mínútu við mikinn fögnuð Tindastólsmanna.
Gestirnir hleyptu meiri krafti í sóknina og reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn. Stólarnir notuðu snillinginn Benjamín Gunnlaugs á vinstri kantinum til að ógna marki D/R, tefja tímann og sýna kúnstir og höfðu vallargestir gaman af að sjá hann ergja gestina með klobbum, vippum og fleira suðrænu fíneríi. Stólarnir hafa ekki oft haft jafn lipran leikmann og Benna í sínu liði en oft vantar kappann styrk til að setja punktinn yfir i-ið. Hann á í það minnsta heiður skilinn fyrir að fá blóðið til að renna í hálf frosnum stuðningsmönnum Stólanna.
Lokatölur því 1-0 í dýrmætum sigri og Stólarnir lyftu sér upp í níunda sæti deildarinnar og eru með 10 stig eftir 10 leiki. Þetta var fyrsti sigur liðsins á heimavelli í sumar og vonandi fylgja margir fleiri í kjölfarið. Bjarki og Sigurvin voru traustir í vörn Tindastóls og í heildina voru menn vinnusamir og staðráðnir í að hafa sigur þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Fannar var kröftugur á miðjunni og Ingvi Hrannar barðist fremstur framan af en féll í bakvörðinn þegar Bjarni Smári yfirgaf svæðið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.