„Einn leik í einu og svo sjáum við hvar við endum“
Lið Kormáks/Hvatar er nú á öðru ári sínu í 3. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Lið Húnvetninga vann sér sæti í deildinni haustið 2021 og náði fínum árangri síðastliðið sumar undir stjórn Aco Pandurevic þó þunnskipaður hópur og meiðsli hafi næstum kostað liðið sætið. Aco yfirgaf Kormák/Hvöt eftir þrjá leiki og erfiða byrjun í sumar og Ingvi Rafn Ingvarsson tók við stýrinu en hann var einmitt við stjórnvölinn þegar liðið vann sér sæti í 3. deildinni.
Síðan hefur leiðin legið upp á við og nú þegar keppni í 3. deild er hálfnuð er liðið í fjórða sæti deildarinnar og aðeins tveimur stigum frá öðru sætinu. Það verður því baráttan um sæti í 2. deild sem er framundan hjá Ingva Rafni og félögum. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir kappann.
Nú er keppni í 3. deildinni hálfnuð. Ertu ánægður með stöðu liðsins í deildinni? „Ég er virkilega ánægður með stöðu liðsins á þessum tímapunkti. Mér hefur fundist liðið vera að bæta sig og styrkjast leik frá leik, sem er ánægjulegt. Ég held að allir sem tengjast félaginu hvort sem það er ég, leikmenn, stjórn eða stuðningsmenn, séu mjög spenntir fyrir seinni umferðinni.“
Hvernig var að taka við stjórn liðsins á ný eftir aðeins þrjár umferðir í sumar? „Að taka við liðinu á þessum tímapunkti var óvænt. Mér persónulega fannst súrt að missa Aco út, enda mikill toppmaður og góður þjálfari. En ég vissi að við værum með góðan leikmannahóp sem væri hægt að vinna með og gera góða hluti í þessari deild. Hingað til hefur þetta var skemmtilegt verkefni og vonandi heldur gott gengi áfram.“
Á lið Kormáks/Hvatar möguleika á að komast í 2. deild? „Ég myndi telja að við ættum góðan möguleika á að komast upp í 2. deild. Ég held við séum með einn af sterkustu leikmannahópunum í deildinni þegar allir okkar lykilmenn eru klárir. Við höfum verið virkilega góðir varnarlega í síðustu leikjum og svo hefur besti markmaður deildarinnar, Uros Djuric, varla stigið feilspor í sumar. En það sem við mættum kannski bæta er að skora meira af mörkum. Við höfum verið að spila góðan fótbolta og haldið vel í boltann en það hefur stundum vantað upp á færanýtinguna. Ég hef svosem ekki miklar áhyggjur að því og er ég viss um það muni koma í næstu leikjum.“
Allir geta unnið alla og er því deildin virkilega spennandi.
Ertu ánægður með spilamennsku liðsins í sumar? „Heilt yfir hef ég verið ánægður með spilamennskuna. Það hafa komið leikir inn á milli sem við höfum ekki átt okkar bestu daga en samt náð í sterk úrslit, sem er jákvætt. Að mínu mati erum við með betra lið en í fyrra. Við erum með stærri hóp og meiri samkeppni um sæti í byrjunarliðinu og jafnvel að komast í hóp. Við höfum fengið unga heimamenn til baka sem hafa séð ljósið og nýtt sínar mínutur mjög vel. Við erum oft með í kringum 25 leikmenn á æfingum sem er mjög ánægjulegt. Þá held ég það hjálpi líka að við erum á okkar öðru ári í deilinni og þekkjum deildina betur.“
Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart í deildinni í sumar? „Ekkert sem hefur komið mér sérstaklega á óvart. Deildin er sterk í sumar, mörg lið að spila góðan fótbolta. Þá er deildin mjög jöfn og er enginn leikur auðveldur. Allir geta unnið alla og er því deildin virkilega spennandi.“
Hópurinn ykkar kom seint saman til æfinga og liðið renndi því kannski svolítið blint í sjóinn þegar mótið hófst. Sumir sáu fyrir sér að það tæki tíma fyrir liðið að ná takti. Að vera í topp fjórum í jöfnum toppslag hlýtur því að vera ánægjulegt og jafnvel óvænt. Er það leikmannahópurinn sem er svona sterkur, andinn frábær – hvað skýrir sterka fyrri umferð hjá Kormáki/Hvöt? „Það er svosem ekkert nýtt fyrir okkur að koma frekar seint saman. Það væri vissulega betra ef liðið næði meiri tíma saman fyrir mót og er það eitthvað sem er verið vinna í fyrir næstu ár. En við náðum nokkrum góðum æfingaleikjum fyrir mót þar sem liðið náði að slípast aðeins til. Það má þó segja að við vorum frekar fljótir að ná takti og eins og áður kom fram þá hefur mér fundist liðið hafa verið bæta sig með hverjum leiknum og erum við að komast á þann stað sem við viljum vera sem lið. Það verður allt auðveldara og betra þegar lið ná í góð úrslit og því fylgir góð stemning sem hefur verið í liðinu í sumar. Það sem skýrir góða fyrri umferð held ég að sé aðallega að menn eru að leggja mikið á sig sem lið, menn eru að vinna fyrir hvorn annan inni á vellinum og svo eru hellings gæði í liðinu sem hefur komið í ljós í síðustu leikjum. Þá er breiddin mjög góð og við erum að spila á fleiri leikmönnum en t.d. síðasta sumar.“
Er eitthvað lið sem þið eruð spenntastir fyrir að mæta í deildinni? „Fyrir mig persónulega skiptir ekki máli við hverja við erum að spila en ég veit það eru nokkrir í liðinu sem bíða spenntir eftir heimaleiknum við Kára, án þess að þurfa útskýra það eitthvað nánar. Þeir vita sem vita.“
Hverjar eru þínar vonir fyrir síðari umferðina? „Ég vona að við höldum áfram að spila vel og ná í góð úrslit. Einn leik í einu og svo sjáum við hvar við endum þegar stigin verða talin í lokin. Við eigum mikið að heimaleikjum í seinni umferðinni sem er jákvætt. Þá vona ég að stuðningsmenn okkar verði áfram duglegir að mæta á völlinn og styðja okkur í baráttunni sem framundan er,“ segir Ingvi Rafn að lokum.
- - - - -
Viðtalið birtist stytt í 37. tbl. Feykis 2023.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.