Eigum mikið inni - segir Pavel
„Ég var mjög ánægður með bróðurpartinn af leiknum. Liðið var að spila jafn vel og ég hef séð í vetur,“ sagði Pavel Ermolinski, þjálfari karlaliðs Tindastóls, þegar Feykir spurði hvort hann hefði verið ánægður með leik sinna manna í tapinu gegn Grindavík. „En svo fór allt í skrúfuna og við frusum algjörlega,“ bætti hann við.
„Það á ekki að gerast og núna vinnum við í að leysa það eins og öll önnur vandamál,“ sagði Pavel.
Finnst þér leikur liðsins vera að smella þó úrslit ársins hafi ekki verið góð? „Nei, það er eitthvað í land með það. Við erum að bæta okkur jafnt og þétt og eigum mikið inni. Það koma upp nýjar hindranir sem þú þarft að yfirstíga og við erum að vinna í því á yfirvegaðan og jákvæðan hátt. Ég tel að það sé rétta leiðin í svona aðstæðum. Þú leysir vandamál þangað til að það eru ekki fleiri vandamál að leysa. Körfuboltatímabil er langt ferðalag, þú veist aldrei hvaða leið þú þarft að fara til þess að ná markmiðum þínum.“
Annað kvöld mæta Vesturbæingar í Síkið en þá eigast lið Tindastóls og KR við í átta liða úrslitum VIS-bikarsins. Þeir svarthvítu spila nú í 1. deildinni eftir erfitt ár í Subway-deildinni tímabilið á undan en liðið er nú í 2. sæti í 1. deildinni þar sem ÍR trónir á toppnum.
Hverju megum við eiga von á í bikarleiknum gegn KR? „Hörku bikarleik fyrst og fremst. Þetta er KR, sama hvaða deild þeir spila í. Þeim skortir ekki sjálfstraust. Við munum mæta með góða blöndu af sjálfstrausti og auðmýkt og gefa allt í þetta,“ segir Pavel að endingu.
Þá er bara að fjölmenna í Síkið og koma okkar mönnum á sigurbraut á ný. Sigurvegarinn í viðureigninni mætir í undanúrslitin í körfuboltaveislu í Laugardalshöllinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.